Lífið

Kominn með nóg af útlendingahatri

Breki Logason skrifar
Bubbi Morthens
Bubbi Morthens

„Nú er komið nóg," segir Bubbi Morthens og á þar við útlendingahatrið sem hann segir hafa verið að aukast jafnt og þétt undanfarið. Bubbi er orðinn pirraður og ætlar að láta til sín taka.

Miðvikudaginn 20.febrúar verða tónleikar í Austurbæ sem Bubbi stendur fyrir og verður frítt inn. „Ég fékk þessa hugmynd í gærkvöldi og framkvæmdi hana í morgun. Ég er því að auglýsa eftir mönnum úr bransanum til þess að spila með mér en tónleikarnir verða undir yfirskriftinni Bræður og Systur," segir Bubbi sem hefur orðið mikið var við aukið hatur í garð útlendinga upp á síðkastið.

„Þetta er í Grunnskólum, á vinnustöðum og maður er að heyra fullorðið fólk tala illa um útlendinga. Þetta er vandamál sem við verðum að horfast í augu við," segir Bubbi sem undrar sig á því að ráðamenn skuli ekki gera neitt í málinu.

„Þeir eru náttúrulega upp til hópa idjótar, eins og sést best á þeirri uppákomu sem varð klukkan tvö í dag," segir Bubbi sem gerir sér vel grein fyrir að alltaf séu einhverjir svartir sauðir innan um.

„Það mun alltaf vera til einhver hópur af mönnum sem eru ekki tilbúnir að fara eftir lögum og reglum, það er nú ekki langt síðan íslendingar voru bannaðir á búllum í Danmörku," segir Bubbi sem biðlar til tónlistarfólks í landinu.

Það tónlistarfólk sem vill taka þátt í tónleikunum með Bubba geta haft samband við Palla Papa í síma 898-5833.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.