Innlent

Sammála menntamálaráðherra um laun kennara

MYND/Heiða

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segist fullkomlega sammála Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, um að hækka þurfi laun kennara. Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins í dag.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, vísaði til þess að um þarsíðustu helgi hefði Þorgerður Katrín menntamálaráðherra lýst því yfir að hækka þyrfti laun kennara. Í kjölfarið hefði fjármálaráðherra lýst því yfir að málið væri á sínu borði og því að mati Valgerðar snuprað menntamálaráðherra.

Innti Valgerður Samfylkinguna um stefnuna í þessu máli. Vísaði hún til þess að Samfylkingin hefði sagt fyrir síðustu kosningar að bæta ætti launakjör hefðbundinna kvennastétta. Nú væri flokkurinn kominn í ríkisstjórn og því væri fróðlegt að heyra hvað flokkurinn hygðist gera í málinu.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vísaði til stjórnarsáttmála þar sem fram kæmi að endurmeta ætti laun hefðbundinna kvennastétta og það ætti meðal annars við um kennara. Pólitískur vilji væri til að taka á málinu. Benti hann á að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður flokksins, hefði í borgarstjóratíð sinni komið myndarlega til móts við ummönnunarhópa og sýnt þar pólitískst þor. Hann hefði sjálfur lengi kallað eftir meiri peningum í menntakerfið og því væri hann fullkomlega sammála varaformanni Sjálfstæðisflokksins um að hækka þyrfti laun kennara.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að kjarasamningar væru ekki í höndum Alþingis eða menntamálaráðherra en gera þyrfti betur við kennara. Gjörbylta þyrfti þeim samningum sem gerðir væru við kennara og hætta að meta sérþekkingu þeirra í mínútum og sekúndum. Þeir sem færu með umboð til kjarasamninga ættu að skoða sjálfstæði skólanna til að fara með sín mál. Þá benti Ragnheiður á að fyrir Alþingi lægi frumvarp um aukna menntun kennara. Það kallaði á launahækkun hjá kennurum. Menntun þjóðarinnar skipti máli og þessi stétt ætti að vera vel launuð.

Valgerður lýsti ánægju með svör Samfylkingarinnar en sagði að það versta væri ekki væri hægt að líta svo á að þau hefðu gildi miðað við orð fjármálaráðherra á þingi í síðustu viku. Þar hefði hann sagt að ekki væri hægt að líta svo á að sjónarmið menntamálaráðherra væru sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Sagði Valgerður því ekki nóg að láta orðin falla í þingsal heldur þyrfti að vinna að málinu þar sem ákvarðanir um þau yrðu teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×