Innlent

Annþór býður í afmæli - löggan leitar að staðnum

Annþór Kristján Karlsson
Annþór Kristján Karlsson

Handrukkarinn Annþór Kristján Karlsson sem lögreglan leitar nú eftir að hann strauk úr fangaklefa við Hverfisgötu í morgun, hefur boðið til síðbúinnar afmælisveislu í kvöld.

Annþór sem varð 32 ára þann 1.febrúar sl. var handtekinn á afmælisdegi sínum og gat því ekki fagnað áfanganum.

Nú hefur hann hinsvegar boðið til veislu í kvöld en heimildir Vísis herma að lögreglan leiti nú að staðsetningu afmælisveislunnar.

Lögreglan á Suðurnesjum vildi ekkert tjá sig um málið að öðru leyti en að víðtæk leit stæði yfir að strokufanganum.

Annþór sem sat í gæsluvarðhaldi átti að mæta fyrir dómara síðdegis þar sem taka átti fyrir gæsluvarðhaldsúrskurð hans sem rennur út í dag.

Annþór strauk af lögreglustöðinni á Hverfisgötu með því að brjóta sér leið í gegnum rúðu á annarri hæð. Í rúðunni var öryggisgler sem hann braut og notaðist hann við band til þess að koma sér niður húsvegg lögreglustöðvarinnar. Þó er ljóst að hann hefur stokkið úr töluverð hæð.

Annþór var klæddur í hvítan bol, gallabuxur og talið er að hann sé í strigaskóm. Annþór er 186 sm og ljóshærður. Hann er talinn hættulegur.

Þeir sem geta gefið lögreglu upplýsingar um ferðir Annþórs eru beðnir að hafa samband í síma 800-1000 eða 4201800.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×