Innlent

Davíð hvetur Vilhjálm til að halda áfram

Davíð Oddsson leggur sitt af mörkum til stuðnings Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni.
Davíð Oddsson leggur sitt af mörkum til stuðnings Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni.

Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur undanfarna daga lagt hart að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins að halda sínu striki þrátt fyrir mótbyr.

Davíð hefur verið í góðu sambandi við Vilhjálm undanfarna daga og hringdi meðal annars til Vilhjálms um helgina til að stappa stálinu í hann. Samkvæmt heimildarmönnum Vísis kom skýrt fram í samtölum þeirra að Davíð hvatti Vilhjálm til að halda sínu striki eins og ekkert hefði í skorist. Davíð mun meðal annars hafa hvatt Vilhjálm til að aðhafast ekki neitt, ekki gefa neina yfirlýsingu heldur standa af sér mótbyrinn sem hann mætir þessa dagana.

Vilhjálmur hefur legið undir ámæli fyrir óvönduð vinnubrögð í tengslum við REI-málið svokallaða síðastliðið haust og lýsti því yfir á blaðamannafundi fyrir rúmri viku að hann hygðist hugsa sinn gang í ljósi þeirrar gagnrýni sem hann hafði orðið fyrir.

Fyrir liggur að Vilhjálmur mun að öllu óbreyttu taka við sem borgarstjóri í byrjun næsta árs samkvæmt samningi Sjálfstæðisflokksins og F-lista og óháðra. Geir H. Haarde, formaður flokksins, sagði í Silfri Egils á sunnudag að hann vænti þess að óvissunni í kringum framtíð Vilhjálms yrði eytt í þessari viku. Afstaða Geirs gerir það líklega að verkum að Vilhjálmur mun koma með yfirlýsingu um framtíð sína í vikunni, sennilega á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×