Viðskipti innlent

Lánamarkaðir eru í raun lokaðir fyrir íslensku bankana

Oliver Johnson sérfræðingur í lánaráðgjöf hjá Barclay´s Capital í London segir að alþjóðlegir lánamarkaðir séu í raun lokaðir íslenskum bönkum í augnablikinu. Í samtali við Vísir segir Oliver að bæði sé um að ræða að fjárfestar vilji ekki lána íslensku bönkunum vegna áhyggna af íslensku efnahagslífi og hinsvegar vilji bankarnir sjálfir ekki taka lán á þeim kjörum sem þeim bjóðast í dag.

Oliver Johnson og kollegi hans í lánaráðgjöf Barclay' s Capital, Kentaro Kiso, skrifuðu grein í Financial Times í gær þar sem þeir fjalla um stöðuna á lánsfjármörkuðunum. Það sem m.a. kemur fram í þessari grein er að þrátt fyrir þrengingar á þessum mörkuðum sé ekkert lát á viðskiptum þar og þeir hafi nóg að gera.

Hvað varðar íslensku bankana segir Oliver að skuldatryggingarálag þeirra sé orðið það hátt að fjárfestar haldi að sér höndum enda eru slík lán talin því ótryggari sem álagið er hærra. "Og íslensku bankarnir hafa örugglega engan áhuga á að taka lán á þeim kjörum sem bjóðast nú," segir Oliver. "Af þeim sökum segjum við að lokað sé fyrir lánsfé til íslensku bankana í augnablikinu."

Hvað varðar góða lánshæfiseinkunn bankana hjá matsfyrirtækjum á borð við Moody segja þeir félagar í grein sinni að margir hafi einkunina A eins og íslensku bankarnir. Nefna þeir sem dæmi nokkra írska banka sem fá ekki lánsfé gegn neinu gjaldi þrátt fyrir háa einkunn.

Oliver segir í samtali við Vísi að lánveitendur horfi meira til skuldatryggingarálagins og efnahagsstöðu viðkomandi lands en einkunna hjá matsfyrirtækjum. "Áhyggjur af efnahagsþróuninni á Íslandi valda því einnig að lánveitendur halda að sér höndunum," segir hann.

Skuldatrygginaálag Kaupþings er nú rétt undir 600 púnktum, hjá Glitni er það rúmlega 400 púnktar en hjá Landsbankanum er staðan best en álagið þar er tæplega 250 púnktar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×