Innlent

Vísir lýsir eftir þremur borgarfulltrúum

Samsett mynd.
Samsett mynd.

Vísir lýsir eftir borgarfulltrúunum Vilhjálmi Þórmundi Vilhjálmssyni, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafi Friðriki Magnússyni.

Síðast sást til þeirra í fundarherbergi í Ráðhúsi Reykjavíkur um hálfeittleytið í dag. Blaðamenn Vísis og Fréttablaðsins höfðu beðið í tvo tíma eftir að ná tali af þeim eftir borgarráðsfund í morgun en þau fóru út bakdyramegin.

Síðan þá hefur Vísir reynt að ná sambandi við þau en án árangurs. Aðrir borgarfulltrúar sem sæti eiga í borgarráði svöruðu spurningum blaðamanna eftir að þeir yfirgáfu borgarráðsfund.

Þeir sem hafa upplýsingar um ferðir þremenninganna eru beðnir um að hafa samband við Vísi á netfangið ritstjorn@visir.is eða í síma 512-5203.

Þeim sem búa yfir upplýsingum sem gætu leitt til viðtals við þau er heitið fundarlaunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×