Innlent

„Ég er ekki að fara að gráta undan einu né neinu“

Gísli Marteinn Baldursson
Gísli Marteinn Baldursson

„Mér finnst þetta vera dapurlegt og ég var sleginn þegar ég las þetta," sagði Gísli Marteinn Baldursson um bloggskrif Össurar Skarphéðinsson í viðtali við Kastljósið fyrir stundu.

Gísli sagðist ekki hafa farið út í stjórnmál til að eiga samskipti við menn á þessum nótum en Össur hafði uppi stór orð á bloggsíðu sinni fyrir skömmu. Þar sagði hann meðal annars að Gísli lægi í pólitísku blóði sínu.

Gísli sagðist hafa fengið fjölda símtala frá Samfylkingarfólki og fólki úr öllum flokkum sem vilji að stjórnmálin séu á hærra plani. „Ég held að Össur sé einn í þessu og ég hef ekki hitt neinn sem ver þetta."

Hann sagðist vera til í að eiga málefnanleg samskipti við Össur hvenær sem er um REI-málið og önnur mál. Gísli sagðist ekki hafa rætt málið við Össur sjálfan.

Aðspurður hvort Össur ætti að biðja hann afsökunar sagði Gísli. „Ég er ekki að fara að gráta undan einu né neinu, menn hafa þetta bara eins og þeir vilja."

Össur sagði í sama Kasljósþætti að hann sæi ekki ástæðu til þess að biðjast afsökunar á skrifum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×