Innlent

Gaukur mun líklega áfrýja

Sigurmar K Albertsson, lögmaður Gauks Úlfarssonar, segir að meiri líkur en minni séu á því að dómi yfir Gauki Úlfarssyni umbjóðanda sínum verði áfrýjað. Hann segist í samtali við Vísi hafa af því áhyggjur að dómurinn muni gefa fordæmi í málum sem þessum en Gauki var í héraðsdómi í dag gert að greiða Ómari R. Valdimarssyni 800 þúsund krónur í miskabætur og málskostnað vegna skrifa á vefsíðu sína.

Færsla Gauks um Ómar bar yfirskriftina „Aðal Rasisti Bloggheima" en þar var Gaukur að bregðast við ummælum sem Ómar viðhafði um Paul Nikolov sem þá var í framboði fyrir VG. Dómari féllst á málflutning lögmanns Ómars og var Gaukur því dæmdur fyrir meiðyrði. Auk þess er honum gert að birta dómsniðurstöðuna á bloggsíðu sinni.

Gaukur vildi ekki tjá sig um málið við Vísi en lögmaður hans Sigurmar K. Albertsson segir að meiri líkur en minni séu á því að málinu verði áfrýjað. „Að þessu máli skuli hafa verið hleypt fyrir dómstóla og að þar hafi fengist sakfelling er auðvitað áhyggjuefni," segir Sigurmar. „Mér virðist sem búið sé að opna á ýmsa möguleika á lögsóknir og það liggur við að maður geti bara lesið Moggann og farið í tíu skaðabótamáli í kjölfarið," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×