Innlent

Höfuðborgarþingmenn vilja aðstoðarmenn á næsta ári

Birgir Ármansson er formaður allsherjarnefndar.
Birgir Ármansson er formaður allsherjarnefndar.

Meirihluti allsherjarnefndar telur að sterk rök hnígi að því að allir þingmenn fái aðstoðarmenn líkt og ætlunin er nú með formenn stjórnarandstöðuflokka og landsbyggðarþingmenn. Vilja þeir fá aðstoðarmenn strax á næsta ári.

Í nýju frumvarpi til breytinga á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er lagt til að alþingismönnum verði heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisrnefnd Alþingis setur.

Í fyrstu er gert ráð fyrir formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu eigi rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf en þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma eiga rétt á að hafa aðstoðarmann í þriðjungsstarfi. Þó geta þingmenn slegið saman í einn aðstoðarmann, það er þrír landsbyggðarþingmenn geta deilt einum aðstoðarmanni. Aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokka verða með aðstöðu á Alþingi en aðrir aðstoðarmenn úti í kjördæmunum.

Fram kemur í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar vegna málsins að nefndin hafi rætt töluvert um ráðningu aðstoðarmanna þingmanna. Leggur meirihlutinn áherslu á að boðað hefur verið að hér sé verið að stíga fyrstu skrefin í þá átt að auka aðstoð við þingmenn almennt.

,,Meiri hlutinn telur að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka þetta fyrirkomulag frekar, m.a. þannig að aukin aðstoð nái til allra þingmanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forsætisnefnd hugi þegar að breytingum í þá veru svo sem með tilliti til fjárlagavinnu fyrir næsta ár," segir í meirihlutaáliti allsherjarnefndar.

Undir það skrifa Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður hennar, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir og Ólöf Nordal. Það sama gerir Sigurður Kári Kristjánsson en með fyrirvara þó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×