Innlent

Tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga barnapíu

MYND/Ingólfur

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórtán ára stúlku sem gætti tveggja sona hans.

Málsatvik voru þau að stúlkan gætti sona hans á heimili hans að kvöldi og nóttina þegar þingkosningar fóru fram síðastliðið vor. Maðurinn kom heim undir morgun mjög ölvaður og í stað þess að greiða stúlkunni fyrir pössunina beitti hann hana bæði kynferðislegri áreitni og hafði við hana kynferðismök.

Maðurinn neitaði sök. Hann sagðist hafa verið mjög ölvaður þegar hann kom heim en teldi sig muna mjög vel atburðarás morgunsins. Dómurinn taldi hins vegar að ekkert hefði komið fram í málinu sem gæfi tilefni til þess að ætla að stúlkan hefði skrövkað í málinu. Þá var einnig litið til þess að stúlkan hefði grátið þegar hún sagði tveimur vitnum frá atvikinu og að hún hefði ekki treyst sér til vinnu sama dag og brotin fóru fram.

Þá þótti rannsókn lögreglu á munnvatni á bringu stúlkunnar einnig benda til sektar mannsins. Enn fremur leit dómurinn til þess að ákærði hefði við fyrstu yfirheyrslu borið fyrir sig minnisleysi um kynferðisbrotin án þess að synja fyrir frásögn stúlkunnar. Þótti dómnum því hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði gerst brotlegur við stúlkuna.

„Er engum vafa undirorpið að ákærði hafi brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi stúlkunnar og vanvirt friðhelgi líkama hennar til að koma fram vilja sínum. Gerðist hann þannig sekur um ofbeldi og ólögmæta nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. hegningarlaganna og ber því að sakfella hann fyrir nauðgun," segir í dómnum.

Maðurinn hafði ekki áður hlotið refsingu og var horft til þess. Þá var einnig litið til þess að brotið var gagnvart ungri stúlku, sem var að gæta barna hans og átti sér einskis ills von, en ákærði hefði misnotað sér kringumstæður og brotið gróflega gegn því trúnaðartrausti, sem eðlilega átti að ríkja í samskiptum hans við barnapíuna. Hann ætti sér engar málsbætur og þætti hæfileg refsing tveggja ára fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×