Erlent

Clinton líkir Obama við Bush

Hillary Clinton gagnrýndi mótframbjóðanda sinn fyrir yfirborðsmennsku og reynsluleysi.
Hillary Clinton gagnrýndi mótframbjóðanda sinn fyrir yfirborðsmennsku og reynsluleysi.

Hillary Clinton hefur síðustu daga hert árásir sínar á Barack Obama í þeirri von að vinna til sín fylgi í prófkjörunum á þriðjudag í næstu viku. Clinton má ekki lengur við því að tapa fyrir Obama í þeim fáu fjölmennu ríkjum sem enn á eftir að kjósa í, því þá væri nokkuð víst að Obama færi með sigur af hólmi í baráttu Demókrataflokksins um það hvort þeirra verður forsetaefni í kosningunum í haust.

Hillary líkti augljóslega Obama við George W. Bush, núverandi forseta, sem þótti næsta reynslulítill í utanríkismálum þegar hann tók við embætti fyrir rúmlega sjö árum. Hún sagði Bandaríkjamenn þegar hafa séð „hörmulegar afleiðingar þess að hafa forseta sem hvorki hefur næga reynslu né visku til að takast á við utanríkismál og tryggja öryggi okkar. Við getum ekki látið það gerast aftur. Bandaríkjamenn hafa þegar tekið þá áhættu einum of oft."

Í forkosningabaráttu repúblikana hefur John McCain síðustu daga lagt æ meiri áherslu á að fjalla um Íraksstríðið. Hann lagði áherslu á það við kjósendur Repúblikanaflokksins að hann myndi tapa í forsetakosningum á móti Clinton eða Obama ef ekki tækist að sannfæra Bandaríkjamenn um nauðsyn þess að halda áfram stríðsrekstri þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×