Skoðun

Hverju var komið í verk á hundrað dögum?

Þegar stefnir hraðbyri í að meirihluti Ólafs F. Magnússonar og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar hafi setið í 50 daga er ekki úr vegi að rifja upp fyrir hvaða verkum hundrað daga meirihluti Tjarnarkvartettsins stóð. Hann var grundvallaður á félagshyggju, umhverfisvernd, framsýni og virðingu fyrir faglegum vinnubrögðum.

Mannauður gegn manneklu – fyrsta verkiðEkki var liðinn sólarhringur þegar kynntar voru aðgerðir til að koma til móts við starfsfólk Reykjavíkurborgar á stofnunum og skólum sem glímt höfðu við manneklu. Mikilvægi slíkra aðgerða hafði þá verið rætt í heilt ár án aðgerða. Ákveðið var að verja 800 milljónum á fjárhagsáætlun 2007 og 2008 til að hækka laun leikskóla- og grunnskólastarfsmanna, starfsfólks hjúkrunarheimila og sambærilegra hópa. Þannig var skapaður nýr og betri jarðvegur í aðdraganda kjarasamninga.

Undið ofan af orkumálumSettur var upp þverpólitískur stýrihópur til að takast á við þær ógöngur sem málefni orkuútrásarinnar og REI voru komin í. Í kjölfarið var samruna REI og GGE hafnað og ákveðið að óháð stjórnsýsluúttekt á OR og REI færi fram af hálfu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Hún mun liggja fyrir innan fárra vikna. Jafnframt var ákveðið að REI skyldi halda áfram í útrás, fyrirtækið yrði 100% í eigu OR en í samstarfi við einkaaðila í tengslum við einstök verkefni.

Félagslegar áherslurFélagshyggja og félagslegar áherslur voru rauði þráðurinn í fjárhagsáætlun sem samþykkt var í desember. Þar var ekki aðeins að finna málefnaskrá meirihlutans heldur einnig fjármuni til að fylgja þeim eftir í framkvæmd. Í menntamálum voru framlög til sérkennslu bæði í leikskólum og grunnskólum stóraukin, þannig að óhætt er að tala um vatnaskil í því hvernig tekið er á vanda barna með félagslegar og tilfinningalegar raskanir. Auk þess náði þessi aðgerð út í öll hverfi og skóla með auknum stuðningi við starf sérfræðinga á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

Tíföldun til forvarnarmálaHundrað milljóna króna forvarnarsjóður var stofnaður, sem mun veita styrki - á grunni umsókna tvisvar á ári - til forvarnarverkefna frjálsra félagasamtaka og annarra sem vinna að mikilvægum forvarnarverkefnum í borgarsamfélaginu. Þetta er nánast tíföldun á fjármagni til slíkra verkefna.

Átak í húsnæðismálumFélagslegar áherslur Tjarnarkvartettsins komu líka fram í því hvernig ákveðið var að taka á sívaxandi húsnæðisvanda efnalítilla borgarbúa. Um 270 milljónir voru settar í ýmsar nauðsynlegar aðgerðir sem þarf að grípa til svo að fólk hafi einfaldlega þak yfir höfuðið, þ.e.a.s. til bráðra úrræða. Þá gekk meirihlutinn frá úthlutun á lóðum til bygginga 600 íbúða til stúdenta og 220 íbúða fyrir eldri borgara, sem nýr meirihluti gerði að sínu fyrsta verkefni að fresta. Unnið var ötullega að frekari tillögum í húsnæðismálum í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og flutningi málaflokka aldraðra og fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Stofnun mannréttindaskrifstofuMannréttindaskrifstofa var stofnuð, og til þess voru lagðar 85 milljónir á þessu ári. Metnaðarfullur samningur við Alþjóðahús var á lokastigi. Hann bíður því miður enn undirritunar. Í honum er m.a. kveðið á um nýja þjónustumiðstöð fyrir innflytjendur í Breiðholti og stóraukna kynningu á málefnum innflytjenda og á þjónustu við nýja Reykvíkinga almennt.

Tekið til hendi í KvosEitt af fyrstu verkum meirihlutans var að kaupa brunarústirnar að Austurstræti 22 og skipa hóp fagaðila til þess að móta tillögur að heildarútliti Lækjartorgs. Með þessari aðgerð, þar sem rústirnar voru keyptar á markaðsvirði (ekki yfirverði!) fékk borgin í hendur gríðarlega mikilvægt framkvæmda- og skipulagsvald í hjarta borgarinnar. Vinna við endurskipulagningu annarra lykilstaða í Kvos var einnig hafin. Sett var af stað athugun á því hvort Geirsgatan eigi að vera í stokk við svæði Tónlistar- og ráðstefnuhússins. Tillaga um róttæka andlitslyftingu Ingólfstorgs lá fyrir þar sem gert var ráð fyrir að torgið yrði rammað inn með gömlum húsum. Auk þess var ákveðið að Ziemsen-húsið, sem nú er verið að gera upp, yrði flutt á Grófartorg.

Skref á sviði húsverndarHið sögufræga Gröndals-hús, ákvað meirihlutinn að skyldi gera upp og flytja inn í Grjótaþorp. Þessi tillaga var sett í grenndarkynningu. Húsið Norðurpóll, sem áður stóð á Laugavegi 125 og var um aldamótin 1900 nyrsti áfangastaður Reykvíkinga á gönguferðum yfir Hlemm, og fyrsta kaffihús bæjarins, skyldi búinn varanlegur staður að nýju sem nyrsti áfangastaður Reykvíkinga á gönguferðum, upp við Esjurætur í nýrri þjónustumiðstöð. Hinn forni Vaktarabær í Grjótaþorpinu var keyptur (á markaðsvirði). Hann verður nú gerður upp og færður í upprunalegt horf á sínum stað.

Laugavegur framtíðarinnarÁ Barónsreit náðust samningar við þróunarfélagið Samson um uppbyggingu mikilvægs verslunarkjarna fyrir Laugaveg þar sem taka á mið af götumynd og sögulegri byggð svæðisins. Þetta mál hafði rekið um stjórnkerfið í meira en ár. Jafnframt var samþykkt að Listaháskólinn skyldi byggja höfuðstöðvar sínar á svokölluðum Vegasreit við Laugaveg. Með makaskiptasamningum tryggði Reykjavíkurborg að stúdentaíbúðir skyldu rísa við Lindargötu. Uppbygging og mannlíf við Laugaveg á eftir að njóta góðs af öllu þrennu.

Tekið af skarið um SundagöngÍ kjölfar umræðu um mikilvægi Sundabrautar tók meirihlutinn af skarið með að hún skyldi liggja í göngum frá Gufunesi að Laugarnesi. Tjarnarkvartettinn lagði áherslu á að hefja undirbúning Öskjuhlíðarganga og hafði boðað að umhverfismat á Miklubraut í stokk á móts við Miklatún færi af stað. Þá var ákveðið að setja fram metnaðarfulla áætlun um hvernig draga mætti úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu. Liður í þessu var að hefja greiningu á kostum léttlestarkerfis og annarra vistvænna leiða í almenningssamgöngum.

Vatnsmýri – 102 ReykjavíkBrýnasta skipulagsmál höfuðborgarinnar var einnig fóstrað af mikilli natni - skipulag framtíðarbyggðar í Vatnsmýrinni. Dómnefnd lauk störfum í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um skipulag byggðarinnar, ákveðið var að efna til veglegrar sýningar á niðurstöðum hennar, gefa út bók af þessu tilefni og setja á fót stýrihóp um heildarskipulag svæðisins. Allt þetta hefur raunar gengið eftir þrátt fyrir meirihlutaskiptin.

Stóraukin hverfaáherslaTjarnarkvartettinn ákvað að stórefla hverfaráð borgarinnar með það að markmiði að gera þau að lifandi vettvangi íbúanna til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Átaksverkefni, byggt á hugmyndum um aukna þátttöku íbúanna var hafið og bar yfirskriftina „1, 2 og Reykjavík". Þá var sérstakt Breiðholtsverkefni í undirbúningi. Ákveðið var að framkvæmdafé til fegrunar umhverfis, uppbyggingu útivistarsvæða og endurgerðar skólalóðar yrði stóraukið.

Sundlaug í Fossvogi og framtíð KolaportsinsHér hefur aðeins verið stiklað á stóru um verk hundraðdaga-meirihlutans og er þetta vitaskuld ekki tæmandi listi. Gera mætti fjölmörgu betri skil s.s. samþykktum um að gera Reykjavík að kvikmyndaborg, endurgerð á Tjarnarbíói, þriggja ára samningum við 25 íþróttafélög í Reykjavík, fækkun í yfirstjórn ráðhússins, ákvörðun um að fella niður aðgangseyri í öll söfn borgarinnar, hefja undirbúning sundlaugar í Fossvogi, vinnu við netvæðingu þjónustunnar, uppbyggingu þráðlauss nets á höfuðborgarsvæðinu, stækkun Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og fleira og fleira. Á síðasta degi meirihlutans tókst svo að tryggja framtíð Kolaportsins til næstu tíu ára. Kannski má segja að flest hafi verið gert, nema hlaupa til og kaupa tvö hús á Laugavegi á tæpar 600 milljónir króna! Tjarnarkvartettinn sannaði á stuttum tíma að festa, framsýni, hugmyndaauðgi og vinnugleði er góð blanda við stjórn Reykjavíkurborgar.



Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×