Innlent

Níu sakfelldir í DC++ máli

Níu menn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sakfelldir fyrir brot á höfundalögum fyrir að hafa dreift ýmiss konar efni með skráarskiptaforritinu DC++. Ríkislögreglustjóri höfðaði mál á hendur mönnum og hlaut einn mannanna 30 daga skilorðsbundið fangelsi en refsingu yfir hinum var frestað og fellur hún niður ef þeir halda skilorð í tvö ár.

Málið kom upp árið 2004 en þá var gerð húsleit hjá tólf manns og tölvur gerðar upptækar. Málið snerist um ólöglega dreifingu á sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum og kvikmyndum með skráarskiptaforritinu DC++. Forritið gerir fólki kleift að skiptast á hvers konar skrám yfir netið á einfaldan hátt og var stórt samfélag var í kringum forritið á Íslandi á sínum tíma.

Það voru Samtök myndefnisútgefenda á Íslandi, Framleiðendafélagið-SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Samband hljómplötuframleiðenda sem lögðu fram kæru til Ríkislögreglustjóra á hendur mönnunum vegna brotanna og ákvað hann í framhaldinu að gefa út ákæru.

Sá sem þyngsta refsingu hlaut var talinn aðalmaður í brotinu með því að hafa stofnað svokallaðan nettengipunkt og hýst hann. Litið var til þess við ákvörðun refsingar yfir mönnunum að brot þeirra hefðu staðið yfir í langan tíma og væru umfangsmikil, en alls fundust um 130 þúsund höfundarréttarvarin verk í tölvum mannanna.

Hins vegar var einnig horft til þess að ákærðu væru ungir að árum og þess að rannsókn málsins dróst nokkuð á langinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×