Innlent

Íslenska krónan aldrei veikari gagnvart evru

Íslenskan krónan hefur aldrei verið veikari gagnvart evru og hefur lækkað um þrjú prósent á fjórum dögum. Hver evra kostaði um hundrað og fimm krónur nú fyrir hádegið. Greining Glitnis spáir því að krónan haldi áfram að veikjast fram á mitt ár.

Það hefur varla farið framhjá mörgum að krónan hefur verið að veikjast hratt síðustu vikur. Hún lækkaði verulega undir lok síðustu viku, einkum á föstudaginn, og í morgun lækkaði hún um eitt prósent gagnvart evru.

Fjölmargir hafa tekið svokölluð myntkörfulán, sem gjarnan eru einhvers konar blanda af evrum, jenum, bandarískum dollurum og svissneskum frönskum. Frá áramótum hefur krónan veikst um tæplega fimmtán prósent gagnvart evru. Evran kostaði tæpar 92 krónur í byrjun árs en nú um 105 krónur.

Svissneski frankinn stóð í tæpum 56 krónum í ársbyrjun en er nú um 67 krónur. Lækkunin nemur nærri 20 prósentum. Japanska jenið var um 57 aurar fyrsta janúar en er nú um 67 aurar. Og dollarinn kostaði um 62 krónur um áramót en er nú rösklega 68 krónur.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að menn spáðu því að krónan héldi áfram að veikjast fram á mitt þetta ár. Aðspurður hvort vanskil væru meiri af myntkörfulánum bankans en krónulánum kvað hann svo ekki vera.

Ástæðan fyrir veikingu krónunnar nú á eins og fram hefur komið uppruna sinn í vandræðum á bandaríska húsnæðislánamarkaðnum sem leitt hefur til þess að skortur er á lánsfé víðast hvar á erlendum lánamörkuðum. Það hefur heft flæði á fjármagni til Íslands og aukið áhættufælni sem bitnar ekki síst á hávaxtamyntum eins og tyrknesku lírunni og íslensku krónunni. Hitt skiptir líka máli, segir Ingólfur, að við erum að sigla niður í efnahagslægð þar sem verið að draga úr fjárfestingum og fiskveiðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×