Innlent

Kappakstur á Granda - tvö ungmenni misstu prófið

Tvö ungmenni voru svipt ökuréttindum á staðnum í gær og í nótt eftir að hafa mælst á hundrað og tíu kílómetra hraða á Grandanum í Reykjavík. Annað þeirra var í kappakstri við aðra bifreið.

Lögreglan hefur undanfarið oft þurft að hafa afskipti af ungmennum sem stunda hraðaakstur og taka þátt í kappakstri á Grandanum. Ungmennin hafa safnast saman á fimmtudags- til sunnudagskvöldum á bílaplönum við verslanir Ellingsen og Europris. Telur lögreglan að þar séu stundum í kringum hundrað bílar.

Lögreglan hefur fylgst nokkuð vel með svæðinu undanfarið en í gær voru þar tveir ökumenn sviptir ökuréttindum vegna hraðaaksturs. Um var ræða strák og stelpu sem bæði eru undir tvítugu.

Um ellefu leytið stöðvaði lögreglan ökumann eftir að hann ók á hundrað og tíu kílómetra hraða á Fiskislóð á Grandanum. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum á staðnum. Ungmennin létu sér þó ekki segjast eftir það því um þremur tímum síðar stöðvaði lögreglan annan ökumann skammt frá, sem var í kappakstri við aðra bifreið, eftir að hann mældist einnig á 110 kílómetra hraða.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×