Innlent

Ráðherra hrakti stjórnendur spítalans úr starfi

Heilbrigðisráðherra hrakti lykilstjórnendur Landspítalans úr starfi til að koma einkavæðingaráformum sínum í framkvæmd. Þetta kemur fram í ályktun þingflokks vinstri grænna. Ráðherra hefur sýnt óeðlileg vinnubrögð og ljóta framkomu gagnvart virtum embættismanni að mati Valgerðar Sverrisdóttur.

Samkvæmt tilkynningu sem heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér í gær mun Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans Háskólasjúkrahúss, láta af störfum um næstu mánaðamót. Þá mun Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjóri, hætta í sínu starfi og taki við yfirumsjón með tilteknum þáttum vegna byggingar nýs spítala.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að þetta hafi verið gert með samkomulagi allra aðila.

Samkvæmt heimildum fréttastofu létu þeir þó ekki af störfum af eigin ósk.

Í harðorða yfirlýsingu sem þingflokkur vinstri grænna sendi frá sér í morgun er Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagður hafa hrakið stjórnendurnar úr starfi til ýta einkavæðingaráformum sínum í framkvæmd.

Lýst er yfir þungum áhyggjum af ástandinu í heilbrigðiskerfinu og að þar ríki nú upplausn.

Undir þetta tekur Valgerður Sverrisdóttir. "Skipstjórinn í brúnni er hrakinn frá og það virðist meira og minna að fyrirtækið eigi að vera stjórnlaust næstu mánuðina. þetta er langstærsti vinnustaður á Íslandi og staður sem þjónar Íslendingum frá vöggu til grafar. Þetta er mjög alvarlegt mál."

Valgerður segir ljóst að þetta sé liður einkvæðingaráformum ráðherrans og gagnrýnir vinnubrögð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×