Viðskipti innlent

Gengið féll af því að vaxta- skiptamarkaðurinn þornaði upp

Friðrik Indriðason skrifar skrifar

Hið mikla fall á gengi krónunnar undanfarna tvo daga skýrist að stórum hluta af því að vaxtaskiptamarkaðurinn hefur þornað upp en hann er ein helsta leið vaxtamunarviðskipta og fjárfestar með stöðutöku í krónunni hafa skipt yfir í stutt ríkisbréf.

Vaxtaskiptasamningar eru það þegar fjárfestar eða aðrir skipa á milli sín greiðsluflæði vegna fjárskuldbindinga. Slíkir samningar geta verið þar sem menn skipta um greiðsluflæði á föstum og fljótandi vöxtum eða þar sem skipst er á greiðsluflæði vaxta í mismunandi myntum. Sem einfalt dæmi má taka að Jón skuldar 100 króna bréf með 5% föstum vöxtum. Gunna skuldar 100 króna bréf með breytilegum vöxtum sem standa í 4% í augnablikinu en miklar líkur eru á að þeir verði komnir í 6% í lok líftíma bréfsins.

Nú heldur Gunna að sínir vextir fari hækkandi og bíður Jón upp á vaxtaskiptasamning því hún getur vel sætt sig við 5%. Jón tekur boðinu ef hann heldur að vextirnir verði áfram undir 5%. Hér er bara verið að skipta á vaxtagreiðslunum en höfuðstóllinn er eftir sem áður í höndum Jóns og Gunnu.

Krónubréf eru ein angi vaxtaskiptasamninga þar sem lán er tekið í lágvaxtamynt og endurlánað í hávaxtamynt. Vegna erfiðs aðgengis að erlendu lánsfjármagni hefur vaxtamunur íslenskrar krónu við evru nær horfið til skamms tíma og við slíkar aðstæður eru krónubréfaútgáfur erfiðar.

Greining Glitnis fjallar m.a. um áhrif þessa á skuldabréfamarkað í Morgunkorni sínu í dag og þar segir: "Hið mikla fall á gengi krónunnar undanfarna tvo daga skýrist að stórum hluta af því að vaxtaskiptamarkaðurinn hefur þornað upp og fjárfestar með stöðutöku í krónunni hafa skipt yfir í stutt ríkisbréf."

Samhliða þessu hefur eftirspurn eftir ríkisbréfum stóraukist og verð á stuttum flokkum ríkisbréfa hækkað mikið. Framboð ríkisbréfa er þó takmarkað og þau geta ekki komið alfarið í stað vaxtaskiptasamninga.

Hvað krónubréfin varðar munu 27 milljarðar kr. koma á gjalddaga í þessum mánuði.Þar af er stór útgáfa 25 milljarðar kr. sem er að mestu eða öllu leyti í eigu innlendra aðila og mun þar af leiðandi ekki hafa áhrif á gengi krónunnar.

Á 2. ársfjórðungi eru 33 milljarðar kr. krónubréfa á gjalddaga en ólíklegt er að það muni hafa teljandi áhrif á gengi krónunnar þó svo að ekkert að þeim útgáfum verði framlengt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×