Innlent

Sprautunálarán eru hluti af fíkniefnavandanum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Gróf ofbeldisverk og hótun um ofbeldi hljóta alltaf að vera með alvarlegustu málum sem upp koma í okkar samfélagi, segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs og íbúi í Breiðholti.

Segja má að holskefla ofbeldisverka hafi riðið yfir Reykvíkinga nú yfir páskana. Fyrst með ítrekuðum ránum þar sem starfsfólki söluturna og bensínstöðvar var ógnað með sprautunálum. Svo með alvarlegri líkamsárás í Keilufelli.

Vilhjálmur segir þessi rán með sprautunálar að vopni vera hluta af fíkniefnavandanum. „Maður hlýtur að spyrja sig hvort við megum eiga von á því að ofbeldisránum fjölgi og að þau verði grófari en áður þegar harðnar á dalnum í samfélaginu. Það er auðvitað óþarfi að mála skrattann á vegginn en við skulum heldur ekki loka augunum fyrir þessum möguleika," segir Vilhjálmur. Hann segir að langt leiddir fíkniefnaneytendur séu í raun sá hópur sem sé einna verst settur í okkar samfélagi. „Og það er með ólíkindum til hvaða örþrifaráða slíkir einstaklingar kunna að grípa til að fjármagna neysluna, " segir Vilhjálmur.

Ástæða til þess að fara yfir öryggismál þjónustustofnana

„Auðvitað gerir lögreglan allt sem í hennar valdi stendur en hún getur að sjálfsögðu aldrei komið endanlega í veg fyrir afbrot af þessu tagi. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess að fulltrúar borgarinnar, lögregla og þeir sem starfrækja bensínstöðvar, banka, verslanir og söluturna, fari í sameiningu yfir öryggismál þessarra þjónustufyrirtækja og þeirra sem þar starfa," segir Vilhjálmur enn fremur.

Vilhjálmur segir að margt hafi verið gert í öryggismálum hér á landi á undanförnum árum, en betur megi ef duga skal. Hann segist þess nokkuð viss að hægt sé að auka til muna öryggi þeirra sem starfi á þessum stöðum, og þar með draga úr líkum á að rán af þessu tagi endurtaki sig.

„Hins vegar megum við aldrei gleyma því að heilladrýgstu viðbrögðin við svona afbrotum felast í forvarnarstarfi, góðum grunnskólum, traustum fjölskylduböndum, fjölbreyttu og hvetjandi umhverfi og raunhæfum meðferðarúrræðum," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir atburðina í Keilufelli vera skelfilega. Hann hafi hins vegar ekki kynnt sér sérstaklega hvað liggi að baki þeim og því vilji hann ekki tjá sig um þá sérstaklega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×