Innlent

Mótmælum vörubílstjóra lokið - boða dagleg mótmæli

Mótmælum vörubílstjóra í Ártúnsbrekkunni lauk fyrir stundu eftir að lögregla kom á vettvang og er því umferðarteppan að leysast. Vörubílstjórarnir hyggjast mótmæla með þessum hætti á hverjum degi þar til gengið verður að kröfum þeirra um lækkun olíugjalda og breytingar á reglum um aksturstíma.

 

Löng vörubílaröð hafði myndast frá Grensásvegi til bensínstöðvar N1 í Ártúnsbrekku á leiðinni út úr bænum og voru miklar umferðartafir af þessum sökum. Vörubílstjórar, sem eru óánægðir með hátt olíugjald og háar sektir Vegagerðarinnar, ákváðu að teppa umferð í brekkunni með því að leggja bílum sínum á veginn.

Að sögn Páls Pálssonar, forsvarsmanns hagsmunasamtaka vörubílstjóra sem stofnuð voru á dögunum, er mikill hiti í mönnum. Hann segir mótmælin í dag ekki að frumkvæði samtakanna heldur hafi hópur vörubílstjóra ákveðið að taka málin í sínar hendur. Verið sé að mótmæla hækkandi olíuverði og gjaldheimtu ríkisins af vörubílstjórum. Mótmælin stóðu í um hálfa klukkustund.

Páll sagði eftir mótmælin að mikill hugur væri í vörubílsstjórum og þeir hygðust endurtaka leikinn á hverjum degi þar til þeir næðu eyrum yfirvalda. „Þetta tókst vel og fólkið í umferðinni sýndi okkur stuðning og því ætlum við að halda áfram," segir Páll.

Hann segir að ekki verði staðið að mótmælunum á sama tíma á hverjum degi en vörubílstjórar muni ekki hætta fyrr en orðið verði við kröfum þeirra um að lækka olíuverð og breyta lögum um aksturstíma vörubílstjóra. Þeir megi samkvæmt reglugerð aka í fjóra og hálfan tíma án þess að stöðva en það telji þeir ekki ásættanlegt.


Tengdar fréttir

Vörubílstjórar teppa umferð í Ártúnsbrekku

Löng vörubílaröð liggur frá Grensásvegi til bensínstöðvar N1 í Ártúnsbrekku á leiðinni út úr bænum og eru miklar umferðartafir af þessum sökum. Vörubílstjórar sem eru óánægðir með hátt olíugjald og háar sektir Vegagerðarinnar ákváðu að teppa umferð í brekkunni með því að leggja bílum sínum á veginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×