Lífið

Vilja gera Vestfirði að sjálfstæðri eyju

Í mogganum í gær var áhugaverð aðsend grein um nýstofnuð samtök, BBV, eða Bloggarar bjarga Vestfjörðum. Samtökin berjast fyrir uppbyggingu Vestfjarða, og telja sjálfstæði þeirra vænlegast til árangurs.

Samtökin vilja að grafinn verði skipaskurður úr botni Gilsfjarðar yfir í Húnaflóa og gera Vestfirði þannig að eyju sem væri tengd Íslandi með skipgengri brú. Firðirnir yrðu fríríki og skattaparadís og tengsl þeirra við Ísland svipuð og tengsl Færeyja og Grænlands við Danmörku.

Tollar og vörugjöld yrðu engin, skattar á fyrirtæki engir og tekjuskattur á einstaklinga 15%. Tekjur undir þrjúhundruð þúsundum á mánuði væru skattfrjálsar og húshitunarkostnaður niðurgreiddur um 50%.

Og mönnum er full alvara. „Jújú, það er ekkert grín," segir Jakob Kristinsson, einn stofnenda samtakanna. Hann segir hugmyndir samtakanna hafa hlotið ótrúlega góðar undirtektir, enda ljóst að Vestfirðir leggist í eyði með óbreyttu ástandi.

Hópurinn er á móti hugmyndum um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þess í stað á að byggja upp atvinnulífið með því að nýta fjársjóði Vestfjarða - nær ósnortna náttúru og gjöful fiskimið. Þau sjá einmitt fyrir sér að strandlengjur Íslands og Vestfjarðaeyjunnar nýtilbúnu yrðu mældar, og aflakvótanum skipt eftir þeim mælingum.

Jakob segir hópinn hafa verið í viðræðum við fulltrúa fyrirtækja um að stunda viðskipti sín í fríríkinu. Flest séu fyrirtækin í ferðaþjónustu, en einnig sé séu þar á meðal bankar og tryggingafélög. Hann segir að víða í heiminum hafi fríríki þrifist vel, og bendir á Lichtenstein í því samhengi. Og hann sér ekkert því til fyrirstöðu að Ísland samþykkti fríríkið.

„Stjórnvöld á Íslandi eru núna búin að samþykkja sjálfstæði Kósóvó. Það væri skrítið að styðja það að hluti af öðru ríki lýsi yfir sjálfstæði og banna það síðan í sínu eigin," segir Jakob.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×