Innlent

Strákurinn handleggsbrotinn og hún föst í umferðarteppu

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, var ein þeirra fjölmörgu sem lentu í umferðarteppu í dag þegar vörubílstjórar lokuðu götum í Reykjavík. Hún var hins vegar verr stödd en margir aðrir þar sem hún var á leiðinni að sækja son sinn sem hafði handleggsbrotnað í leikfimi í skólanum. Hún vandar því vörubílstjórunum ekki kveðjurnar og segir að mótmæli á borð við þessi eigi að skipuleggja í samráði við lögreglu.

„Ég er mjög hlynnt mótmælum og lýðræðislegum uppákomum af þessu tagi en þegar þetta er gert verður það að skipuleggjast í samvinnu við lögreglu," segir Þorbjörg Helga í samtali við Vísi. „Ég lendi í því að fá símtal frá skólanum þar sem mér er sagt að strákurinn minn hafi slasað sig í leikfimi og sé líklegast handleggsbrotinn. Ég rýk af stað en áður en ég veit af er ég föst í þessari teppu sem myndaðist. Ég hringdi í neyðarlínuna og þeir buðust til þess að senda sjúkrabíl af stað en ég ákvað að bíða og sem betur fór losnaði ég úr teppunni stuttu seinna. En þetta tafði mig þó og á tímabili sá ég ekki fram á að komast til hans í bráð," segir Þorbjörg.

Þegar hún loksins losnaði komst hún til drengsins og síðan gekk vel að koma honum á slysavarðstofuna. „Ég var í raun mjög heppin, en þetta hefði getað farið verr og sem betur fer var einungis um handleggsbrot að ræða en ekki eitthvað verra. Ég vona bara að enginn hafi lent í alvarlegri vandræðum út af þessum mótmælum," segir Þorbjörg.

Sonur hennar hefur nú jafnað sig að hennar sögn og er sprækur með forláta gifs á hendinni. „En ég krefst þess af þessum ágætu mótmælendum að þeir skipuleggi svona hluti með lögreglunni fyrirfram."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×