Viðskipti innlent

Vogunarsjóðirnir tóku skortstöðu á íslenska markaðinum

Fjórir alþjóðlegir vognunarsjóðir munu hafa tekið skortstöðu á íslenska markaðinum eftir áramótin. Fulltrúar þeirra komu hingað til lands á vegum fjárfestingabankans Bear Stearns í janúar. Kaupþing íhugar nú málsókn gegn Bear Stearns vegna málsins.

Vísir hefur upplýsingar um að í kjölfar þessarar ferðar til Íslands skrifaði Bear Sterns magnaða greiningu sem hét Samanburður á Íslandi og Kazakstan þar sem Ísland kom ekki vel út í samanburðinum.

Jónas Sigurgeirsson, upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir í samtali við Vísi að umfang skortstöðunar liggi ekki fyrir. Þeir séu að skoða málið með lögfræðingum sínum og muni ekki tjá sig meir um það að sinni.

Skortstaða er þegar fjárfestar veðja á að gengi bréfa muni lækka í stað þess að hækka. Ekkert óeðlilegt er við slíkt nema þegar tveir eða fleiri hafa samráð um slíka stöðu gagnvart einu félagi eða markaði í heild. Við slíkt verður málið alvarlegt og ólöglegt samkvæmt lögum og reglum um kauphallarviðskipti.

Jónas segir að fari svo að Kaupþing leggi fram kæru á hendur Bear Stearns í þessu máli myndi slík kæra beinast að markaðsmisnotkun bankans hér á landi.

Vogunarsjóðir þeir sem hér um ræðir eru DA Capital Europe, King Street, Merill Lynch GSRG og Sandelman Partners.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×