Innlent

Einkaþota ráðherra kostar sex milljónum meira en áætlunarflug

Andri Ólafsson skrifar

Það kostar skattgreiðendur tæpum sex milljónum meira að ferja Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og föruneyti þeirra á NATO-fund með einkaþotu en í almennu flugi.

Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarkona forsætisráðherra, sagði í samtali við Vísi í dag að kostnaðarmuninn á ferðinni miðað við áætlunarflug óverulegan. Jafnframt bætti hún við að þetta verið nauðsynlegt þar sem þurft hefði að gista í London yfir nótt ef farið hefði verið með almennu flugi.

Þetta er ekki alveg rétt hjá Grétu.

Samkvæmt upplýsingum frá dohop.com leitarvélinni er hægt að fljúga frá Keflavík til Heathrow og þaðan til Búkarest á miðvikudag og svo til baka á föstudag fyrir 131 þúsund krónur á mann. Verðið miðast við að flogið sé með Icelandair til London og British Airways til Búkarest.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er 10 manna föruneyti frá forsætis- og utanríkisráðuneytinu á leiðinni til Búkarest og samanlagður kostnaður vegna ferðar af þessu tagi ætti því að vera rúmar 1300 þúsund krónur, ef skynsamlega væri haldið utan um budduna það er að segja.

Eins og Vísir sagði frá í dag ákváðu Geir og Ingibjörg hins vegar að ráðlegra væri að leigja einkaþotu frá fyrirtækinu Icejet og fljúga beint til Búkarest.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er Dornier einkaþota af því tagi sem Geir og Ingibjörg hafa leigt um sex tíma að fljúga til Búkarest og aðra sex að fljúga til baka. Klukkutíminn er leigður út af Icejet, samkvæmt upplýsingum Vísis, á um 5 þúsund evrur. Það þýðir að ferðin fram og tilbaka kostar 60 þúsund evrur eða um 7.2 milljónir íslenskra króna.

Það þýðir jafnframt að ef tíu eru í föruneyti Geirs og Ingibjargar sé kostnaðurinn á hvern og einn um 720 þúsund krónur.

Munurinn á því að föruneyti Geirs og Ingibjargar ferðist með einkaþotu en ekki í almennu flugi er því 5,9 milljónir íslenskra króna.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×