Erlent

Gríðarlega öryggisgæsla í Búkarest vegna NATO-fundar

Gífurlegar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar í Búkarest fyrir fund Atlantshafsbandalagsins sem þar hefst í dag. Bush Bandaríkjaforseti undirstrikaði í morgun áherslu sína á að Úkraínu og Georgíu verði boðin aðild að bandalaginu.

Lögregla vaktar nú hvert götuhorn í miðbæ Búkarest. Svo miklar eru reyndar öryggisráðstafanirnar að stór hluti fréttamanna hefur enn ekki fengið aðgang að Alþýðuhöllinni, gríðarstóru byggingunni sem Ceausescu fyrrverandi einræðisherra lét byggja og hýsir nú þennan stóra leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins.

Það tengist þó líka vandræðagangi tæknimanna því tölvur hafa verið í ólagi, hljóðnemasnúrur ekki tengdar og ferðir frá flugvellinum verið í uppnámi sökum skipulagsleysis.

En það kom ekki í veg fyrir ræðu Bush Bandaríkjaforseta í morgun sem lagði áherslu á þá skoðun sína að bjóða ætti Úkraínu og Georgíu aðild að bandalaginu. Aðild að NATO ætti að vera opin öllum lýðræðisríkjum í Evrópu sem þess æsktu. Hvort hann var þar að tala um Rússland er ekki ljóst en Pútín Rússlandsforseti mætir á fundinn á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×