Innlent

120 þúsund króna hjóli stolið í Mosfellsbæ

Aron á flugi á hjólinu sem hann nú saknar sárt.
Aron á flugi á hjólinu sem hann nú saknar sárt.

Aron Emil Sigurðsson, þrettán ára gamall drengur úr Mosfellsbæ, varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að nýlegu 120 þúsund króna fjallahjóli hans var stolið fyrir utan Lágafellskóla í gær. Móðir hans leitar dyrum og dyngjum af hjólinu.

„Hann hefur ekki þorað að fara á hjólinu í skólann í allan vetur og síðan um leið og hann fer á því þá er því hjólinu stolið," segir Lilja Sveinbjörnsdóttir, móðir Arons Emils, í samtali við Vísi.

„Við erum í sjokki enda um rándýrt hjól að ræða. Hann hélt fyrst að hann hefði gleymt hjólinu heima hjá vinkonu sinni og ætlar varla enn að trúa því að það sé horfið," segir Lilja um son sinn.

Lilja ætlaði að fara á lögreglustöðina í Mosfellsbæ í morgun til að kæra þjófnaðinn en fann ekki stöðina. „Hún er vel falin þannig að ég verð bara að fara á morgun," segir Lilja.

Í dag hefur hún ásamt fjölskyldu sinni gengið og keyrt um Mosfellsbæ í von um að finna hjólið. „Það þekkja allir þetta hjól. Það getur enginn hjólað lengi í Mosfellsbænum á því án þess að upp um komist," segir Lilja en hjól Arons Emils er brúnt forláta Norco B-line fjallahjól með tveimur dempurum.

Lilja biðlar til fólks í Mosfellsbæ og biður það að hafa augun opin. Hún hefur einnig sent foreldrum barna í Lágafellsskóla tölvupóst þar sem hún biður þá um að líta í kringum sig.

„Þetta er sorglegt. Hann er mikill hjólamaður og hefur hugsað afskaplega vel um hjólið. Það hefur verið inni í skúr í allan vetur og þar hefur hann bónað það reglulega," segir Lilja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×