Lífið

This is My Life meðal vinsælustu Júróvisjónlaganna

Erkifjandi íslendinga, Charlotte Pernelli hin sænska, hefur tekið afgerandi forystu í kosningu um besta Eurovisionlagið þetta árið, þegar átta landsdeildir OGAE, stærsta Evróvisjónaðdáendaklúbbsins, hafa gefið lögunum í keppninni einkunn.

Landsdeildirnar gefa lögunum stig á bilinu eitt til tólf, á sama hátt og löndin gera í keppninni sjálfri. Pernelli, sem eins og frægt er hafði sigurinn naumlega af Selmu árið 1999, hefur hlotið 87 stig, en Sviss, sem er í öðru sæti einungis 49.

Framlag Íslands, This is my life, hefur hlotið 27 stig, og hafnar því í sjöunda sæti af 43 eins og staðan er núna. Það kæmist samkvæmt því upp úr riðlinum fræga sem við höfum setið föst í frá því snemma á þessu árþúsundi.

Enn á fjöldi landa eftir að gefa stig sín, og því möguleiki að niðurstaðan breytist eitthvað. Samtökin standa þó einnig fyrir kosningu á heimasíðu sinni, sem er lokið. Samkvæmt henni flýgur Júróbandið upp úr riðlinum, og sjá netverjar fyrir sér að lagið lendi í fjórða sæti í lokakeppninni.

Á heimasíðunni segir að lög Svíþjóðar, Sviss, Portúgals og Íslands séu áberandi vinsælust meðal aðdáendanna. Það eigi þó enginn að fagna enn, því val aðdáendanna eigi oft lítið sameiginlegt með lokaniðurstöðu keppninnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×