Innlent

Meintur morðingi gengur laus

Pólskur karlmaður sem er eftirlýstur fyrir morð í heimalandi sínu hefur óáreittur stundað byggingavinnu á Íslandi í nokkra mánuði. Lögreglan veit af manninum en aðhefst ekki þar sem hann er ekki eftirlýstur á alþjóðavettvangi.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að maðurinn sé grunaður um hrottalegt morð í Wloclawek í Póllandi, þar sem handtökuskipun var gefin út á hendur honum í fyrra. Eftir það flúði maðurinn til Íslands en hér hefur hann starfað við byggingavinnu um nokkurra mánaða skeið.

Lögreglan staðfesti við fréttastofu Stöðvar tvö að hún viti hver maðurinn er en vill ekki gefa upp hvort hann er undir sérstöku eftirliti. Í samtali við fréttastofu sagði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á öfuðborgarsvæðinu, að til að íslensk lögregluyfirvöld geti aðhafst í málinu verði maðurinn að vera eftirlýstur á alþjóðavettvangi, sem hann er ekki. Að öðru leyti vildi lögreglustjóri ekki tjá sig um málið.

Lögregluyfirvöld á Íslandi hafa sett sig í samband við starfsbræður sína í Póllandi og mun málið vera í vinnslu. En þar til pólsk lögregluyfirvöld lýsa eftir manninum á alþjóðavettvangi eða senda út handtökubeiðni á manninn gengur hann frjáls ferða sinna hér á landi.

Í úttekt pólska dagblaðsins Gazeta á samfélagi Pólverja á Íslandi kemur fram að maðurinn hafi ásamt félögum sínum stundað að kúga fé út úr samlöndum sínum á Íslandi með hótunum um ofbeldi. Að sögn lögreglu hefur verið uppi orðrómur um að glæpagengi stundi þessa iðju hér á landi, en engar áþreifanlegar sannanir séu fyrir hendi.

Maðurinn tengist ekki árásarhópnum sem réðist á hóp Pólverja í Keilufelli í síðasta mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×