Innlent

Halli HA enn óleystur samkvæmt Ríkisendurskoðun

MYND/KK

Halli á rekstri Háskólans á Akureyri hefur ekkert minnkað á milli áranna 2006 og 2007 samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga í fyrra.

Þar kemur fram tólf af þrettán stofnunum sem Ríkisendurskoðun fjallaði um í skýrslu um framkvæmd fjárlaga 2006 hafi enn staðið með verulegum halla í árslok 2007. Meirihluti þeirra heyrir undir menntamálaráðuneytið.

Eini fjárlagaliðurinn sem kominn var með ónýtta fjárheimild af þessum þrettán var Sendráð Íslands en í fjáraukalögum í fyrra var 514 milljóna króna viðbótarheimild á þann lið og því stóð hann með rúmlega 50 milljóna króna afgang við lok síðasta árs.

Uppsafnaður halli Háskólans á Akureyri var 337 milljónir árið 2006 en var 336 milljónir við lok síðasta árs. Þá var uppsafnaður halli Landbúnaðarháskólan Íslands 58 milljónir króna árið 2006 en 124 milljónir árið 2007. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum var enn með halla en hann hafði minnkað úr 148 milljónum í 53 á milli áranna 2006 og 2007.

Meðal annarra stofnana sem enn stóðu með töluverðum halla árið 2007 og Ríkisendurskoðun benti á í skýrslu sinni árið 2006 voru Námsmatsstofnun, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn að Laugarvatni, Menntaskólinn á Ísafirði, Flensborgarskóli, Fornleifavernd ríkisins, Þjóðleikhúsið og Landbúnaðarstofnun. Samanlagður halli stofnananna tólf nemur 867 milljónum króna en var 889 milljónir í fyrra.

Ábyrgð á halla ekki einungis hjá forstöðumönnum

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir enn fremur að hún telji að ábyrgð á þessum hallarekstri liggi ekki aðeins hjá forstöðumönnum umræddra stofnana heldur sömuleiðis hjá ráðuneytunum. Nauðsynlegt sé að skerpa ákvæði um ábyrgð ráðuneytaá fjárreiðum stofnana í lögum og reglugerð. „Stofnunin telur enda að síendurtekin brot gegn fjárreiðulögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og aðgerðaleysi ráðuneyta vegna þeirra sýni að ábyrgðin er ekki að öllu leyti hjá forstöðumönnum stofnananna," segir í skýrslunni.

Alls voru 120 fjárlagaliðir reknir með halla á árinu 2007. Meðal þeirra eru Landhelgisgæslan með 136 milljóna halla, en hann var 355 milljónir árið 2006. Þá eykst halli Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu úr 303 milljónum í 373 milljónir milli ára. Báðar stofnanir voru með halla yfir fjögurra prósenta viðmið í lok síðasta árs. Fari útgjöld fram yfir það skal meta hvort ámina eigi forstöðumenn á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×