Innlent

Prófessor segir auglýsingar til barna vera misnotkun

Prófessor í félagsfræði segir auglýsingar sem beint er til barna vera misnotkun. Formaður Samtaka auglýsenda segir börn stýra innkaupum heimila og auglýsendur finni alltaf leiðir, verði bannað að auglýsa í barnatímum. Betra sé að auka auglýsingalæsi barna.

„Við erum skapandi fólk. Við finnum leiðir fram hjá bönnum eins og sjá má með áfengisauglýsingar," segir Ingvi Jökull Logason, formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa, um auglýsingar sem beint er til barna. Því stoði lítið að banna þessar auglýsingar alfarið.

Fram kemur í athugun menntamálaráðuneytisins að eingöngu í kringum barnatíma í sjónvarpi eru birtar hátt í þúsund auglýsingar árlega, á hvorri sjónvarpsstöð um sig, Sjónvarpinu og Stöð tvö.

Rannsóknir sýna að tveggja ára börn þekkja vörumerki, en þau gera að jafnaði ekki skýran greinarmun á auglýsingum og dagskrárefni fyrr en um átta ára aldur.

Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði, sagði í umræðum á málþingi menntamálaráðuneytisins á dögunum, að það að beina auglýsingum að börnum jaðraði við að vera misnotkun á börnum.

En hvers vegna er auglýsingum beint til barna, þau hafa til dæmis ekki fjárráð? „Börn eru stór kaupendahópur. Þau búa til kauphegðum," segir Ingvi Jökull.

Hann segir að seint verði alfarið komið í veg fyrir að börn sjái auglýsingar. Því þurfi fyrst og fremst að auka auglýsingalæsi barna. „Það þarf að kenna þeim að skilja á milli dagskrárefnis og auglýsinga," segir Ingvi Jökull og bætir því við að slíkt hafi þegar verð kynnt fyrir fulltrúum menntamálaráðuneytis og lífsleiknifulltrúum í skólum.

„Þetta skiptir engum sköpum í sambandi við tekjurnar. Við erum alveg til í hvaða niðurstöðu sem er," sagði Páll Magnússon, útvarpsstjóri, um auglýsingar í barnatímum ríkissjónvarpsins, á málþinginu. Í sjónvarpstilskipuninni eru sett mörk við auglýsingum, en fyrirtækjum á markaði gefið svigrúm til að semja sín á milli um takmarkanir.

„Við erum ekki í aðstöðu til að semja okkur frá neinu sviði tekjuöflunar, við þær aðstæður sem nú er," sagði Ari Edwald, forstjóri 365-miðla.

Sjá Markaðinn



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×