Innlent

Ber einn tjón vegna stolinna bíla

Bandarísk tollayfirvöld segja nú ekkert benda til að stolnir bílar frá Bandaríkjunum hafi verið seldir til Íslands. Viðtæk rannsókn þeirra bendi til að Íslendingur sem keypti 11 stolna bíla sé sá eini sem lent hafi klóm glæpagengis. Kaupandinn var nýgræðingur og mun sjálfur bera tugmilljóna króna tjón vegna þessa.

Hald var lagt á bílana í Richmond í Virginíu vegna gruns um að þeir væru stolnir. Lögreglu og tollayfirvöld í Bandaríkjunum höfðu í nokkurn tíma áður fylgst með glæpahring sem stal bílum, breytti þeim og seldi úr landi, aðallega til meginlands Evrópu. Leiddi það til þess að hald var lagt á bílana ellefu sem voru á leið hingað til lands.

Kaupandi bílanna er nýgræðingur í innflutningi á bílum frá Bandaríkjunum og hafði enga vitneskju um að bílarnir væri þýfi. Það hefur viðamikil rannsókn málsins leitt í ljós. Þá segja tollayfirvöld nú að ekkert bendi til þess að stolnir bílar frá Bandaríkjunum hafi verið seldir hér á landi eða fluttir hingað til lands frá Bandaríkjunum. Mál Íslendingsins og fyrirtækis hans sé því einsdæmi, en flestir bílanna voru eins og fyrr segir á leið til meginlands Evrópu. Í samtali við fréttastofu í dag sagði kaupandi bílanna að hann komi sjálfur til með að bera rúmlega 30 milljóna króna tjón vegna málsins. Hann hafi verið búinn að leggja út fyrir bílunum og búinn að fá samþykki yfirvalda til útflutnings þegar hald var lagt á þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×