Innlent

Stjórnarslitin í Bolungarvík koma Grími á óvart

Breki Logason skrifar
Grímur Atlason bæjarstjóri í Bolungarvík
Grímur Atlason bæjarstjóri í Bolungarvík MYND/Vilhelm

„Þetta kemur mér gríðarlega mikið á óvart," segir Grímur Atlason bæjarstjóri Bolungarvíkur um stjórnarslitin í bæjarstjórn sveitarfélagsins.

Meirihlutasamstarf A-lista og K-lista í Bolungarvík sprakk í gær en það var A-listinn sem sleit samstarfinu. Ef marka má ummæli Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur oddvita A-listans í frétt á bb.is er ástæðan sú að oddviti K-listans sé með of mikil umsvif í bænum sem skapi óhjákvæmilega hagsmunaárekstra.

„Þetta er eins og með nútímann að það þarf oft svo ótrúlega lítið til svo fólk hlaupist undan merkjum," segir Grímur og bætir við að í 900 manna samfélagi sé það óhjákvæmilegt að einhver sem er í bæjarstjórn eigi eitthvað í einhverju fyrirtæki. Hann segir óánægju með umsvif oddvita K-listans ekki hafa komið upp áður.

Grímur var ráðinn bæjarstjóri og hefur setið sem slíkur í stjórnartíð A-lista og K-lista.

Aðspurður hvort hann sé á leiðinni til Reykjavíkur segir Grímur: „Ég á hús í Bolungarvík og hér finnst mér gott að vera. En ef fólk kýs það að losa sig við mig þá verður svo að vera. Þetta eru bara örlögin en ég er með ráðningarsamning hér áfram, þetta verður því bara að koma í ljós."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×