Innlent

Stjórnarandstaðan vill ræða átök lögreglu og bílstjóra

Stjórnarandstaðan hefur farið fram á það við Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, að sérstakur fundur verði haldinn í nefndinni. Farið er fram á að nefndin fjalli um átök atvinnubílstjóra og lögreglu við Rauðavatn í dag.

Beiðni stjórnarandstöðunnar um fund í nefndinni sem send var Birgi Ármannssyni var svohljóðandi:

Í ljósi þeirra afar sérstæðu atburða sem urðu í dag á Suðurlandsvegi við Rauðavatn í Reykjavík, þar sem til átaka kom milli lögreglu og nokkurs hóps borgara, förum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd Alþingis fram á fund í allsherjarnefnd Alþingis við fyrsta tækifæri til að afla upplýsinga um hvað raunverulega gerðist. Við förum fram á að þú herra formaður hlutist til um að fundur nefndarinnar verði ákveðinn hið fyrsta og kallaðir verði fyrir nefndina fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og forystumenn vörubifreiðastjóra svo og aðrir sem eðlilegt getur talist að kallaðir verði fyrir nefndina, til að afla sem gleggstu upplýsinga um málið.

Fulltrúar stjórnarandstöðu í allsherjarnefnd eru Siv Friðleifsdóttir, Atli Gíslason og Jón Magnússon




Fleiri fréttir

Sjá meira


×