Enski boltinn

Ferguson: Vítaspyrnudómurinn var fáránlegur

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segir að vítaspyrnudómurinn sem réði úrslitum í leik Chelsea og Manchester United í dag hafi verið fáránlegur.

Chelsea hélt lífi í titilbaráttunni með 2-1 sigri þar sem Michael Ballack tryggði sigurinn með marki úr vítaspyrnu. Vítið var dæmt eftir að fyrirgjöf Michael Essien hrökk af höndinni á Michael Carrick í teignum.

Ferguson segir þessa ákvörðun dómarans ekki þá einu sem fallið hafi gegn hans mönnum að undanförnu og hefur áhyggjur af því að slíkt geti haft áhrif á titilbaráttu liðsins.

"Við eigum ekki möguleika ef úrslit leikja eiga að ráðast á vítaspyrnum - á miðað við þróun mála síðustu vikur," sagði Ferguson og taldi upp nokkur atriði úr leiknum gegn Middlesbrough á dögunum þar sem honum þótti halla á hans menn í dómgæslu.

"Boltinn var hvort sem er að fara beint á kollinn á Rio Ferdinand. Carrick lyfti ekki upp hendinni heldur var með hana við líkamann á sér. Ég veit að boltinn fór í hendina á honum en það er dálítið blóðugt að fá á sig víti með þessum hætti í svona stórum leik. Ef baráttan um titilinn á að ráðast á vítaspyrnum, getum við allt eins hætt núna. Þetta var mikið áfall og fáránlegur dómur," sagði Ferguson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×