Innlent

Sakar oddvita A-lista um ósannindi

Grímur Atlason fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík.
Grímur Atlason fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík.

Grímur Atlason fráfarandi bæjarstjóri í Bolungarvík hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar A-listans sem birtist á Vísi fyrr í dag. Þar sakar Grímur Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur oddvita A-listans um ósannindi sem hann segir ekki koma á óvart.

Meirihlutasamstarf A-lista og K-lista sprakk fyrir helgi og nú er A-listinn búinn að mynda meirihlutasamstarf með D-lista. Grímur Atlason verður ekki áfram bæjarstjóri heldur oddviti D-listans.

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Gríms.

"Vegna yfirlýsingar a-listans í Bolungarvík um meintan alvarlegan trúnaðarbrest í bæjarstjórn Bolungarvíkur vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Yfirlýsing a-listans er ótrúleg samsuða af rangfærslum þar sem sannleikurinn er togaður og beygður að þörfum þeirra sem eiga vondan málstað að verja.

Hér er um söguskoðun að ræða sem stenst ekki nánari skoðun. Pólitískt kjörnir fulltrúar munu án efa tjá sig frekar um þessa yfirlýsingu en ég sé mig knúinn til þess að leiðrétta hrein og klár ósannindi um efni og tilefni fundar sem oddviti a-listans átti með undirrituðum fyrir tæpum tveimur vikum. Í yfirlýsingu a-listans segir:

Þegar fráfarandi bæjarstjóri gaf út yfirlýsingu varðandi staðsetningu Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Flateyri átti forseti bæjarstjórnar (oddviti A-listans) fund með bæjarstjóra og lýsti óánægju sinni með viðbrögð bæjarstjóra. Sú yfirlýsing bæjarstjóra endurspeglaði ekki skoðun meirihluta bæjarstjórnar í því máli enda hafði bæjarstjórn ekki ályktað um málið. Þegar svo oddviti K- lista og jafnframt formaður bæjarráðs ber blak af bæjarstjóra á opinberum vettvangi þrátt fyrir að oddviti A - listans hefði sett ofan í við hann, keyrir um þverbak. Hér verður alvarlegur trúnaðarbrestur milli aðila.

Anna Guðrún Edvardsdóttir oddviti a-listans átti engan fund með undirrituðum þar sem yfirlýsing undirritaðs um staðsetningu Innheimtustofnunar sveitarfélaga bar á góma. Hún átti vissulega með mér fund en erindið var allt annað.

Við ræddum ekkert um Flateyri eða Innheimtustofnun sveitarfélaga. Að halda öðru fram eru ósannindi sem kemur svo sem ekki á óvart þegar litið er á þau þau makalausu og óheiðarlegu vinnubrögð sem a-listinn hefur lagt stund á síðustu daga."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×