Innlent

Greinir frá svari við áliti mannréttindanefndar SÞ fyrir þinglok

MYND/Vilhelm

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stefnir að því að kynna svar ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi áður en þingfundum lýkur í vor. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins.

Mannréttindanefndin komst að því í fyrra að íslenska kvótakerfið bryti í bága við Mannréttindasáttmála SÞ og ber ríkisstjórninni að bregðast við því áliti. Siv benti á að ríkisstjórnin hefði frest til 11. júní til að svara mannréttindanefndinni og spurði hún hvort von væri á svari fyrir þann tíma.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á að hann hefði lýst því yfir að álitið yrði tekið alvarlega og þá bætti hann við að álitinu yrði svarað. Hann hefði efasemdir um röksemdarfærsluna á bak við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar en það breytti því ekki að álitinu yrði svarað. Svarið væri bæði fræðilegt og pólitískt. Fræðimenn hefðu verið kallaðir til að vinnslu svarsins og svo þyrfti ríkisstjórnin að komast að sameiginlegri niðurstöðu í svarinu. Hann vonaðist til að geta kynnt svarið fyrir þingheimi áður en þingið færi í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×