Viðskipti erlent

Hvarf iPhone úr vefverslunum talið vita á nýjan síma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Apple

Hinn vinsæli iPhone-sími frá Apple, sem selst hefur eins og heitar lummur, er nú uppseldur í vefverslunum beggja vegna Atlantsála, í Bretlandi og Bandaríkjunum. Telja sumir þetta órækt merki þess að ný gerð símans birtist á mörkuðum von bráðar og verði sá búinn hraðvirkari nettengingu.

Hafa þessar væntingar meðal annars orðið til þess að hlutabréf í Apple hækkuðu um 3% í síðustu viku. Natalie Kerris, talsmaður Apple, sagði það rétt að iPhone-birgðirnar væru á þrotum og vildi ekki gefa ákveðnar yfirlýsingar um hvenær bætt yrði úr því.

Þeir sem telja símaþurrðina forleik þess að ný vara líti dagsins ljós búast fastlega við að Steve Jobs, forstjóri Apple, afhjúpi þetta sköpunarverk sitt á þróunarráðstefnu Apple 9. júní næstkomandi. Jobs hefur spáð því að 10 milljónir iPhone-síma seljist áður en árið er úti.

Greiningarsérfræðingurinn Gene Munster telur nýja símann verða búinn iPod-spilara og bjóða upp á mun hraðvirkari nettengingu en nú þekkist með notkun svokallaðs þriðjukynslóðarnets. Hægt verði að kveikja og slökkva á þessari tengingu að vild en notkun hennar gangi hraðar á rafhlöðu símans.

Gert er ráð fyrir að Singapore Telecommunications, stærsta símafyrirtæki Suðaustur-Asíu, bjóði núverandi iPhone-síma á fjórum mörkuðum í Asíu síðar á árinu.

Bloomberg greindi frá.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×