Innlent

Andstæðingum tekist að gera málstað Sjálfstæðisflokksins ótrúverðugan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur segir umræðu síðustu mánaða hafa verið afar erfiða. Í könnun Gallup gerði kemur fram að flokkur hans myndi missa tvo borgarfulltrúa yrði gengið til kosninga í dag. Flokkurinn er við það að missa þriðja manninn yfir til Samfylkingar sem myndi þýða að sá flokkur næði hreinum meirihluta í borginni. Hann veltir því fyrir sér hvers vegna könnunin sé birt núna og viðurkennir að andstæðingum flokksins hafi tekist vel upp í því að gera málstað hans ótrúverðugan.

„Við sjálfstæðismenn þekkjum vissulega betri tölur," segir Vilhjálmur og minnir á að í síðustu kosningum hafi Sjálfstæðisflokkurinn fengið 42 prósent atkvæða. Í dag fengi flokkurinn hins vegar 31 prósent sé miðað við könnunina en hún var framkvæmd dagana 1. til sextánda apríl síðastliðinn.

Vilhjálmur segist velta því fyrir sér hvers vegna könnunin hafi ekki verið birt fyrr en í fréttum RÚV af málinu í kvöld kom fram að samkvæmt heimildum fréttastofunnar hafi það verið borgarstjórnarflokkur VG sem lét framkvæma hana.

„Ég tek þessar tölur mjög alvarlega en það er bara eitt sem vakir fyrir okkur í meirihlutanum og það er að vinna vel að hagsmunamálum í þágu allra borgarbúa. Það sem við höfum gert á fyrstu hundrað dögunum okkar er mun meira en það sem gamli meirihlutinn kom í verk," segir Vilhjálmur og bætir því við að borgarfulltrúarnir vinni hörðum höndum að því að sinna þeim málum sem núverandi meirihluti byggir á.

„En menn hafa gengið langt í því að reyna að gera okkar málstað ótrúverðugan og ég verð bara að viðurkenna að andstæðingum okkar hefur tekist það," segir Vilhjálmur. Hann bætir því við að núverandi meirihluti hafi ekki gert neitt annað en að stjórna borginni „og ég er sannfærður um að við erum að gera góða hluti í því. Það er síðan í verkahring kjósenda að dæma okkur af þeim verkum í næstu kosningum," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×