Lífið

Dalvík á hliðina vegna Eurovision

Skólakrakkarnir láta ekki sitt eftir liggja.
Skólakrakkarnir láta ekki sitt eftir liggja.
Það verður allt á öðrum endanum í Dalvíkurbyggð næstu daga. Þriggja daga Eurovisionhátíðarhöld eru fyrir höndum, enda er bærinn heimabær Friðriks Ómars, annars helmings Eurobandsins, sem keppir fyrir Íslands hönd í Serbíu.

„Þetta er bara allt að gerast. Við ákváðum bara að setja allt á annan endann og gera eitthvað almennilegt úr þessu," segir Júlíus Júlíusson, forsvarsmaður stuðningshóps Eurobandsins.

Það kom honum ekkert á óvart að Friðrik, sem hann hefur þekkt frá unga aldri, skyldi enda í Eurovision. „Ég sagði við hann þegar hann var smágutti að hann ætti eftir að keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd. Nú er komið að því," segir Júlíus.
Myndir krakkanna prýða glugga ráðhúss bæjarins.
Dalvíkingar ætla ekki að láta sitt eftir liggja í stuðningi við sitt fólk. Þeir hafa gert aðdáendamyndband til að stappa stálinu í Eurovisionfarana og verður bærinn í sannkölluðum Eurovisionbúningi næstu daga. Þriðja og fjórða bekkjar börn í bænum hafa teiknað myndir til stuðnings sveitarinnar, sem skreyta nú ráðhús bæjarins, og fjögur þúsund blöðrur merktar Eurovisionþorpinu Dalvík eru á leið norður með flugi.

Þær verða væntanlega á lofti í risaskrúðgöngu sem fer á morgun frá ráðhúsinu í íþróttahúsið, þar sem horft verður á undankeppnina á risaskjá. Júlíus hefur tröllatrú á því að Ísland verði í hópi þeirra tíu þjóða sem komast áfram á undanúrslitakvöldinu. „Það verður upphitunarkvöld á föstudag. Við vitum og trúum að þau komist áfram og stefnum á heljarinnar veislu á laugardag."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×