Innlent

Segir árás lögreglumanns í 10/11 verslun ekkert einsdæmi

Sveinn Ævars Sveinsson, tvítugur nemi úr Garðabæ, segir að árás lögreglumanns í 10/11 verslun í gærkvöld sé ekkert einsdæmi. Sveinn nefbrotnaði eftir viðskipti sín við lögreglu í fyrra.

Sveinn var handtekinn eftir að hafa verið vísað út af björkvöldi Fjölbrautaskólans í Garðabæ í fyrra. Sveini var vísað út af staðnum þar sem hann var ekki með aldur til þess að vera þar inni. Þegar út var komið biðu hans tveir lögreglumenn. Sveinn segir að þeir hafi beðið um að sjá skilríki en þegar hann hafi neitað hafi þeir handtekið hann. Sveinn reiddist þá og sýndi nokkurn mótþróa.

Honum var fleygt inn í lögreglubifreið og þar segir Sveinn að tveir lögreglumenn hafi setið ofan á honum. Annar með hné sitt á hnakka hans.

Farið var með Svein á lögreglustöð og hann settur í klefa.

"Þeir hentu mér á gólfið í klefanum. Ég var hins vegar enn í handjárnum og andlitið á mér small því í gólfinu. Við þetta nefbrotnaði ég. Það fossblæddi úr nefinu á mér og miðnesið skekktist. Ég hafði streyst töluvert á móti handtökunni en þar var vegna þess að mér fannst ég ekki hafa gert neitt af mér. Að mínu mati misnotuðu lögreglumennirnir vald sitt og beittu mig ofbeldi. Það var enginn ástæða til þess að beita þessu harðræði."

Sveinn kærði ekki lögreglumennina þar sem honum var tjáð að það myndi ekki stoða neitt. Hann var sjálfur dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni en Sveinn beit einn lögreglumannana sem sat á honum í lögreglubílnum.

"Það voru bara ósjálfráð varnarviðbrögð. Það sá samt ekkert á honum. Ekkert miðað við mig allavega," segir Sveinn.

"Sumir þessara lögreglumanna eru fullfljótir að beita ofbeldi. Það er mín reynsla eftir að ég var handtekinn í fyrra og ég sannfærðist enn frekar þegar ég sá myndbandið af lögreglumanninum í 10/11 versluninni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×