Samkvæmt upplýsingum frá Hjalta Guðmundssyni, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, verður reynt að bjarga hvítabirninum sem nú hefst við í Skagafirði. Verið er að setja saman áætlun um hvernig eigi að þyrma lífi bjarnarins.
Samkvæmt hugmyndum Umhverfisstofnunar á að leita aðstoðar dýragarðsins í Kaupmannahöfn við að fanga björninn og koma tveir menn þaðan með búnað til þess. Hjalti segir að reynt verði að flýta komu þeirra og það verði vonandi ekki síðar en á miðvikudag.
Magnús Jóhannessson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, sagði í samtali við fréttastofu að hugmyndir væru uppi um að flytja ábúendur á Hrauni og nærliggjandi bæjum í burtu á meðan á þessu stæði.
Egill Þorri Steingrímsson, héraðsdýralæknir á Blönduósi, segir að engin áætlun sé til um hvernig bregðast eigi við aðstæðunum. Hægt er að koma deyfilyfi í gegnum æti til bjarnarins en slíkt væri samt sem áður ekkert annað en tilraunastarfsemi þar sem aðgerð af þessu tagi hefur aldrei verið framkvæmd hérlendis.
Egill er staddur í Reykjavík þar sem hann er nýkominn frá útlöndum en vonar innilega að hægt verði að bjarga dýrinu. Hann bætir við að lögreglan hafi brugðist mun betur við í dag en hún gerði þegar fyrri hvítabjörninn gerði vart við sig.