Innlent

Sjálfstæðisflokkur hafnar áformum umhverfisráðherra

Sjálfstæðisflokkurin hefur hafnað áformum umhverfisráðherra um landsskipulagsáætlun og verður ráðherrann gerður afturreka með það ákvæði stjórnarfrumvarps að skipulagslögum, sem er til meðferðar Alþingis.

Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum, samkvæmt gildandi lögum, sem þýðir til dæmis að ef Vesturbyggð leyfir olíuhreinsunarstöð við Arnarfjörð hefur ríkisvaldið engin tæki til að koma í veg fyrir það.

Ákvæði um landsskipulagsáætlun í frumvarpi umhverfisráðherra að breyttum skipulagslögum takmarkar þetta sjálfstæði sveitarfélaganna og myndi færa ráðherra og Alþingi vald til knýja sveitarfélögin til að fylgja heildarstefnu, sem ráðherrann markaði í samræmi við stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun.

Þannig gæti umhverfisráðherra markað þá stefnu að nóg væri komið af álverum í landinu og Húsvíkingar og aðrir yrðu þá að beygja sig undir það. Menn hafa velt upp því dæmi að ráðherra gæti með samþykki Alþingis knúið Reykvíkinga til að hafa flugvöll áfram í Vatnsmýri ef það teldist varða almannahagsmuni.

Sveitarstjórnarmenn í landinu hafa hins vegar mótmælt þessum áformum nokkuð einróma, og nú staðfestir Kjartan Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd Alþingis, að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn breytingunni.Kjartan segir að það sé vægast sagt mjög mikil andstaða við ákvæðið um landskipulagsáætlun og ekki sé vilji til að samþykkja það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×