Innlent

Kúkur frá Kópavogi fullkomlega siðlaus

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Dælustöðin sést hér ofarlega fyrir miðju með skáhallandi þaki.
Dælustöðin sést hér ofarlega fyrir miðju með skáhallandi þaki.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag dælir Kópavogsbær skólpi í Skerjafjörð um einu sinni í viku.

Að mati Óttars Hrafnkelssonar, forstöðumanns Ylstrandarinnar í Nauthólsvík og Siglingaklúbbsins Sigluness, sem eru næstu nágrannar við dælustöðina, er fullkomlega siðlaust af bæjaryfirvöldum í Kópavogi að dæla skólpi út með þessum hætti. „Það getur vel verið að það sé gott að búa í Kópavogi en það er ekki gott að vera nágranni þeirra," segir Óttarr og er allt annað en sáttur.

Í grein Fréttablaðsins kom fram að skólpi væri dælt í Fossvoginn þegar aðrar þróaðri skólphreinsistöðvar yfirfylltust. Óttarr gefur ekki mikið fyrir þessa afsökun og segir þetta svipað og ef hann væri að halda teiti og myndi senda alla gestina sína yfir í garð nágranna sinna til að hafa hægðir vegna þess að klósettið á hans heimili væri upptekið.

Óttarr segir að það sé einfalt fyrir starfsmenn í Nauthólsvík að sjá hvenær Kópavogsbær byrjar að dæla skólpi í sjóinn en þá hópast mávar að frárennslinu. Mælingar á saurgerlum í sjónum í Nauthólsvík eru hins vegar vel undir eðlilegum mörkum. „Við dælum líka tuttugu þúsund lítrum af heitu vatni á hverjum degi í lónið. Ég er ekkert viss um að við fengum svona hagstæðar tölur úr saurgerlamælingunum ef við myndum ekki dæla öllu þessu vatni."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×