Lífið

Bandaríkjamaður á besta aldri gefur lim sinn á Reðursafnið

Sigurður Hjartarson eigandi Reðursafnins sagðist himinlifandi með Elmo í samtali við Vísi fyrir skömmu.
Sigurður Hjartarson eigandi Reðursafnins sagðist himinlifandi með Elmo í samtali við Vísi fyrir skömmu.

52 ára gamall kaupsýslumaður frá Colorado í Bandaríkjunum mun gangast undir aðgerð á næstunni. Þar verður limur hans fjarlægður og ánafnaður Reðursafninu á Húsavík í fullri reisn ásamt eistum. Vísir hefur áður sagt frá manninum sem vill láta kalla sig Tom Mitchell.

Hann er þrígiftur, á nokkur börn og segist ekki hafa nein not fyrir liminn lengur. Hann vill nú einbeita sér fullkomlega að starfsframanum og verður fyrsti lifandi karlmaðurinn í heiminum til þess að gefa lim sinn á reðursafn. Vísir sló á þráðinn og heyrði í honum hljóðið, rétt fyrir aðgerð.

„Ég hef hugsað um þetta lengi og nú hef ég ákveðið að láta verða að því. Ég vil að þetta sé gert rétt og þegar maður vill að eitthvað sé gert rétt verður maður að gera það sjálfur," segir Tom Mitchell en hann kallar lim sinn Elmo.

Hann rakst á Reðursafnið á Húsavík þegar hann var að flakka á internetinu og komst í samband við Sigurð Hjartarson eiganda safnsins með tölvupósti. „Þetta var mín hugmynd en ég hafði heyrt af eldri manni á Íslandi sem hafði ánafnað lim sinn safninu. Þá spurði ég hvort Siggi væri ekki áhugasamur um að fá lim frá öðru landi og hann svaraði því játandi," segir Tom.

Tom hefur ekki komið á Reðursafnið en hyggst heimsækja safnið þegar hann gefur lim sinn. „Okkur Elmo hlakkar mjög mikið til að koma í heimsókn."

Aðspurður hvort hann hafi leitt hugann að því að hann muni sjá eftir gjöfinni þegar árin líða segir Tom að svo verði líklega ekki. „Þetta er eitthvað sem mig langar að gera og ég hef hugsað lengi um þetta.

Ástæðurnar eru nokkrar og meðal annars sú að ég vil að þetta sé gert rétt eins og ég hef áður sagt. Ég hef líka verið giftur þrisvar og á nokkur uppkomin börn þannig að það er ekki vandamál. Aðal ástæðan er samt sú að ég hef gengið í gegnum nokkrar breytingar á síðustu árum og er að skapa mér feril sem kaupsýslumaður. Nú vil ég ekki hugsa um neitt annað en að ná frama í því og öll mín orka á að fara í vinnuna," segir Tom sem var í töluverðum vandræðum með að finna lækni til að framkvæma aðgerðina.

Hann hefur þó fundið lækni í Bandaríkjunum sem mun framkvæma aðgerðina en ekki er komin endanleg dagsetning á hana.

Aðspurður um nafnið Elmo sem hann hefur gefið typpinu á sér segir Tom að það hafi upphaflega verið tillögu frá gamalli kærustu. „Ég giftist henni síðan þegar ég var tvítugur og hún átján. Hún kallaði hann alltaf Elmo og það bara festist við hann."

Tom segir að fjölskylda og vinir taki misjafnlega vel í hugmyndina en flestir vilji lítið tjá sig um uppátækið. „Dóttir mín sagði við mig um daginn að þetta væri minn líkami og það væri mitt að ákveða hvað ég gerði við hann. Níu af hverjum tíu vinum mínum hafa hinsvegar reynt að tala mig af þessu. Fólk er samt alltaf að ganga í gegnum allskonar breytingar í lífinu."

Elmo er ekki eins og hvert annað typpi því í gegnum árin hefur Tom skreytt hann með allskonar húðflúrum sem hafa skemmst með árunum. „Ég hef sett á hann hjörtu, blóm o.fl. en með árunum hefur blekið eyðilaggst þar sem húðin er svo þunn. Það gerist ekki annarsstaðar á líkamanum en ég ætla að láta fjarlægja þau með laser aðgerð," segir Tom sem síðan ætlar að setja myndarlegan bandarískan fána á Elmo áður en hann fer norður á Húsavík.

Uppátæki Toms hefur vakið nokkra athygli og fylgist t.a.m kvikmyndargerðarfólk með honum þessa dagana en það fólk er að gera heimildarmynd um Reðursafnið á Húsavík.


Tengdar fréttir

Elmo væntanlegur á Reðursafnið

Sigurður Hjartarson, forstöðumaður Reðursafnsins á Húsavík var í forvitnilegu viðtali á BBC World Service í morgun. Þar fór hann yfir sögu þessa merkilega safns og minntist á mann nokkurn sem hefur ánafnað safninu getnaðarlim sinn. Fleiri hafa raunar gert slíkt hið sama og lofað Sigurði lim sínum eftir sinn dag, en Stan nokkur Underwood bætir um betur, því hann ætlar að senda Sigurði liminn áður en hann deyr. Stan er við hestaheilsu, um sextugt og limur hans gengur víst undir nafninu Elmo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×