Innlent

Ramses meðhöndlaður sem fangi á Ítalíu

Atieno talaði við mann sinn í morgun og hefur miklar áhyggjur af honum.
Atieno talaði við mann sinn í morgun og hefur miklar áhyggjur af honum. MYND/Stöð 2

,,Hann er enn á flugvellinum og það er farið með hann eins og glæpamann, það fylgja fjórir vopnaðir lögreglumenn honum út um allt, meira að segja á klósettið" sagði Rosemary Atieno Othiembo, kona Pauls Ramses sem talaði við mann sinn í morgun.

Að hennar sögn líður Paul Ramses mjög illa og hefur ekki fengið neinar upplýsingar hvað sé framundan hjá honum.

Henni leið ekki sem best sjálfri en sagðist þó reyna að láta lífið ganga sinn vanagang. Hún vissi ekki hvað tæki við hjá þeim en ef Ramses gæti ekki komið aftur til Íslands myndi hún líklegast reyna að fara til Ítalíu og vera hjá honum.

Mál Ramses hefur vakið mikla athygli síðustu daga en hann var sendur úr landi í gær þar sem hann hafði ekki landvistarleyfi. Ramses heldur því fram að hann sé á aftökulista stjórnvalda í Kenía og því sótti hann um pólitískt hæli hér á landi.

Útlendingastofnun vísaði til Dyflinnarsamningsins þegar ákveðið var að vísa honum úr landi en samkvæmt honum er hægt að vísa umsækjendum um hæli til þess Evrópulands sem menn koma fyrst til.

Boðað hefur verið til mótmæla við dómsmálaráðuneytið nú klukkan tólf vegna meðhöndlunar íslenskra stjórnvalda á máli Ramses.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×