Íslenski boltinn

Jónas stendur við hvert einasta orð

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jónas Hallgrímsson. Mynd/123.is/volsungur
Jónas Hallgrímsson. Mynd/123.is/volsungur

Jónas Hallgrímsson ætlar að hætta nú þegar sem þjálfari Völsungs á Húsavík. Hann er mjög ósáttur við yfirlýsinguna sem stjórn félagsins sendi frá sér í dag og ætlar ekki að klára fyrri umferðina í 2. deild.

Jónas skaut föstum skotum á Knattspyrnusamband Íslands og dómara í viðtali á vefsíðunni Fótbolti.net í gær. Stjórn Völsungs sendi síðan frá sér yfirlýsingu þar sem hún baðst afsökunar á ummælum Jónasar.

„Þeir bara gjörsamlega runnu á rassgatið með þetta. Ég tók algjöra ábyrgð á því sem ég sagði og þeim kemur þetta bara ekkert við. Ég var að segja frá því sem þeir hafa líka talað um en svo guggna þeir bara og senda frá sér þessa tilkynningu," sagði Jónas, mjög ósáttur með stjórn Völsungs.

„Ég stend algjörlega við það sem ég sagði í þessu viðtali. Ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki sagt meira. Þeir hringdu í mig þarna frá þessari síðu meðan ég var í vinnunni. Hefði ég verið betur undirbúinn hefði ég skotið fastari skotum."

Ummæli Jónasar hafa heldur betur vakið athygli. „Mér finnst samt að það þurfi að vekja enn meiri athygli á þessu. Með því að senda frá sér þessa yfirlýsingu í dag þá var verið að eyðileggja þetta. Ég er hættur sem þjálfari liðsins," sagði Jónas.

Völsungur situr í neðsta sæti 2. deildarinnar.


Tengdar fréttir

KSÍ harmar ummæli þjálfara Völsungs

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Jónasar Hallgrímssonar, þjálfara Völsungs á Húsavík í 2. deildinni. Jónas hyggst láta af störfum vegna óánægju með dómgæslu í leikjum liðsins í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×