Íslenski boltinn

Bjarki: Þetta er mikil áskorun

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arnar og Bjarki taka við þjálfun ÍA.
Arnar og Bjarki taka við þjálfun ÍA.

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir eru að taka við þjálfun ÍA. Þeir funda með Skagamönnum í hádeginu og það er fátt sem getur komið í veg fyrir að þeir taki við liðinu að sögn Bjarka.

„FH er alvöru klúbbur og vissi af áhuga okkar á að taka þetta verkefni. Við erum mjög ánægðir með þá í þessu máli," sagði Bjarki sem segir það í raun formsatriði að klára málið.

„Við förum ekkert leynt með það að við höfum mikinn áhuga og það á bara eftir að skrifa undir samninga. Þetta er mikil áskorun en við trúum því að leikmannahópurinn sé nægilega sterkur. Getan er til staðar, þetta lið náði góðum árangri í fyrra og það urðu ekki miklar mannabreytingar hjá liðinu."

„Sjálfstraust leikmanna hefur beðið hnekki og það er okkar verkefni að snúa því við," sagði Bjarki. Sumarið 2006 tóku Arnar og Bjarki við stjórnartaumunum hjá ÍA um mitt sumar og gerðu góða hluti. Þar var sóknarleikurinn allsráðandi.

„Aðalsmerki ÍA á gullaldartímabilum þess var sóknarbolti og okkur finnst að þannig eigi það að vera. Við ætlum samt alveg að sýna skynsemi, það verður ekkert þannig að tíu verða í sókn og einn í vörn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×