Íslenski boltinn

Guðjón: Kom mér ekki á óvart

Elvar Geir Magnússon skrifar

Guðjón Þórðarson sagði í viðtali í hádegisfréttum á Stöð 2 að sú ákvörðun stjórnar ÍA að rifta samningi hans hafi ekki komið sér á óvart.

„Í sjálfu sér ekki. Ég var búinn að gera mér grein fyrir því að gengi liðsins hefur verið langt frá því að vera viðunandi. Í sjálfu sér kemur mér þetta ekkert á óvart," sagði Guðjón.

„Stjórnir eru kosnar til að stjórna og stundum þurfa þær að taka ákvarðanir sem þeim finnst kannski ekki auðvelt að gera," sagði Guðjón.

Gísli Gíslason, formaður meistaraflokksráðs ÍA, var einnig í viðtali á Stöð 2. „Taflan sýnir það að okkur er að mistakast. Við settum okkur ákveðin markmið og það er þannig í fótboltanum að ef þú nærð ekki markmiðunum þá verðurðu að leita annarra leiða til að halda áfram," sagði Gísli.

Hann sagði sökina þó ekki eingöngu vera Guðjóns. „Alls ekki. Hún er alveg eins hjá stjórninni og líka hjá leikmönnum sem eru á vellinum hverju sinni. Guðjón hefur verið að leggja sig allan fram í verkefnið en við höfum ekki náð því út úr liðinu sem við vorum að vona. Við þurfum að grípa til ákveðinna ráðstafana til að reyna að snúa genginu við."

„Guðjón var á þriggja ára samningi og það voru ákvæði í honum sem verða virk núna. Við vissum það að í fótboltanum verða alltaf breytingar," sagði Gísli.




Tengdar fréttir

Bjarni: Eitthvað þurfti að gera

„Það er ekki mitt að taka ákvörðun um þetta en ljóst er að eitthvað þurfti að gera," sagði Bjarni Guðjónsson, fyrirliði ÍA, um þjálfarabreytinguna hjá liðinu. Guðjón Þórðarson var látinn taka pokann sinn og Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir eru að taka við liðinu.

Guðjón Þórðarson rekinn frá ÍA

ÍA hefur fengið leyfi frá FH til að ræða við Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni um að taka við þjálfun liðsins. Guðjón Þórðarson hefur verið rekinn vegna dapurs árangurs á tímabilinu.

Bjarki: Þetta er mikil áskorun

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir eru að taka við þjálfun ÍA. Þeir funda með Skagamönnum í hádeginu og það er fátt sem getur komið í veg fyrir að þeir taki við liðinu að sögn Bjarka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×