Innlent

Útilokar ekki skaðabótamál á hendur borginni

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir útilokar ekki að sækja skaðabætur til borgarinnar vegna ákvörðunar borgarstjóra að reka hana úr skipulagsráði. Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður telur yfirvofandi brottrekstur brot á sveitarstjórnarlögum.

Dögg Pálsdóttir segir á bloggsíðu sinni að hún telji að sá gjörningur Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra að reka fyrrverandi aðstoðarmann sinn, Ólöfu Guðnýju, úr skipulagsráði borgarinnar hafi verið ólögmætur. Brottvísunin standist ekki sveitarstjórnarlög.

Ástæðan sem Ólafur F. hefur gefið upp, að Ólöf Guðný njóti ekki lengur trausts hans, nægi ekki. Ef skipta eigi út fulltrúa í nefnd þurfi að vera eining um brottvikninguna eða fyrir henni málefnalegar ástæður samkvæmt lögum. Borgarstjóri getur nefnilega ekki rekið Ólöfu upp á sitt einsdæmi, borgarráð þarf að staðfesta brottreksturinn en næsti fundur hans er á fimmtudaginn.

Því spyr Dögg hvort borgarfulltrúar sjálfstæðismanna ætli að samþykkja þennan gjörning og bera þar með ábyrgð á vinnubrögðum af þessu tagi. Ef mat Daggar er rétt, segir Sigurður Líndal lagaprófessor í Fréttablaðinu í dag, þá getur Ólöf krafist skaða- og miskabóta. Ólöf kveðst þakklát Dögg fyrir stuðninginn.

Ólöf segir þennan gjörning hættulegan lýðræðinu. Hún kveðst ætla að bíða og sjá til hvort borgarráð kýs hana út úr skipulagsráði áður en hún tekur ákvörðun um hvort hún höfði skaða- og miskabótamál á hendur borginni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×