Innlent

Rektor gagnrýnir aðgengi fatlaðra að háskólum hér á landi

Runólfur Ágústsson, rektor Keilis.
Runólfur Ágústsson, rektor Keilis.

Í dag útskrifaði Keilir, miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs, sína fyrstu nemendur. Runólfur Ágústsson, rektor skólans gagnrýndi í útskriftarræðu sinni aðgengi fatlaðra að háskólanámi hér á landi. Hann benti á að þeir skólar sem taki inn fatlaða nemendur, þurfi sjálfir að bera af slíku verulegan kostnað. Rúnólfur tók dæmi af Keili, en kostnaður skólans vegna aðkeyprar túlkaþjónustu frá Samskiptamiðstöð heyrnalausra hleypur að hans sögn á milljónum króna næsta háskólaár.

Keilir er nýr skóli sem að sögn Runólfs hefur ekki úr digrum sjóðum að spila. Því sé staðan þannig að ef fleiri hæfir fatlaðir einstaklingar myndu sækja um nám við skólann sem þyrftu á sambærilegri þjónustu að halda, yrði að hafna þeim af því að þeir væru væri fatlaðir og fjármunir ekki til.

Alls útskifuðust 85 manns af Háskólabrú Keilis, þar af 33 af félagsvísinda- og lagadeild, 8 af hugvísindadeild, 24 af verk- og raunvísindadeild og 20 af viðskipta- og hagfræðideild.

Bestum árangri náði Elín Guðlaug Hómarsdóttir með meðaleinkunnina 9,41, Rannveig Kristín Randversdóttir með 9,23 og Sverrir Ágústsson með 9,22 en þau eru öll úr verk- og raunvísindadeild.

Flestir útskrifanema eru að hefja nám við innlenda eða erlenda háskóla nú í haust og munu m.a. leggja stund á verkfræði, tölvunarfræði, stærðfræði, ensku , íslensku, rússnesku, kennslufræði, lögfræði, viðskiptafræði, félagsfræði, félagsráðgjöf, sálfræði, frumkvöðlafræði, bókmenntafræði og sagnfræði, svo að nokkur dæmi séu tekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×