Hvítir kynþáttahatarar í Bandaríkjunum binda miklar vonir við hugsanlegan sigur Baracks Obama í forsetakosningunum vestra í haust. Ekki vegna þess að þeir séu á hans bandi, heldur vegna þess að sigur hans gæti aflað þeim fjölda nýrra liðsmanna.
Sigur Obamas, segja liðsmenn Ku Klux Klan og fleiri kynþáttahatarar, gæti orðið hvati þess að hvítir menn rísi loks á fætur og sýni hverjir séu Guðs útvalda fólk - það sé löngu tímabært. Þeir telja að sigri Obama í haust - og um það efast þeir ekkert - þá muni þeir geta notað ásjónu hans til að safna liði og sanna í eitt skipti fyrir öll að hvítir menn hafi misst stjórnina á Bandaríkjunum. Aðrir gera sér vonir um að með blökkumann í Hvíta húsinu verði loks hægt að fá hvíta menn til að láta til sín heyra í stað þess að sitja heima og röfla, eins og þeir orða það.
Richard Barrett hefur búið í Mississippi frá 1966 og ferðast um Bandaríkin til að vekja athygli á því sem hann kallar hagsmunamálum hvítra kynstofnsins. Hann segir að þjóðernissinnarnir, það er að segja hvítir kynþáttahatarar, séu virkir í 35 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Hann líkir krúnurökuðum nýnazistum sínum við frelsishetjurnar sem börðust við bresku krúnuna fyrir nærri þrjú hundruð árum í sjálfsstæðisbaráttu Bandaríkjanna.
Stuðningsmenn Baracks Obama eru ekki sérlega áhyggjufullir yfir þessu - ekki einu sinni djúpt í Suðurríkjunum þar sem þeir sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins hafa dýpstar rætur, því kynþáttahöturum fari blessunarlega fækkandi.